137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

stuðningur við Icesave-samkomulagið.

[10:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum þær miklu umræður sem hafa verið í samfélaginu og í sölum Alþingis í síðustu viku um hina svokölluðu Icesave-reikninga og þau gjöld og þær skuldbindingar sem munu fyrirsjáanlega lenda á íslenska ríkinu, verði það samkomulag efnt sem íslenskir samninganefndarmenn hafa sett stafina sína undir í viðræðum við bresk stjórnvöld.

Það hefur líka komið fram í þessum umræðum að það virðist vera svo að draga megi í efa að meirihlutavilji sé á Alþingi fyrir slíku samkomulagi. Ég vil því beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra hvort ríkisstjórnin hafi, þegar samningamönnunum var heimilað að setja stafina sína undir þetta samkomulag, verið búin að ganga úr skugga um að það væri meiri hluti á Alþingi fyrir slíkri gjörð. Ég vísa m.a. til þess að fyrr í vikunni var beint fyrirspurn til hv. formanns þingflokks Vinstri grænna og það var ógerningur að ráða af því svari hvort nægilega margir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styddu þetta mál til þess að hægt væri að mynda meiri hluta hjá stjórnarliðinu fyrir slíkum samningi. Það er því ástæða í ljósi mikilvægis þessa máls að hæstv. forsætisráðherra geri þinginu grein fyrir því hvort búið hafi verið að ganga úr skugga um það í þingflokkum þessara flokka þegar samninganefndarmennirnir fengu þetta umboð að nægilega margir þingmenn stjórnarliðsins hygðust styðja þennan gjörning þannig að fyrir honum væri meiri hluti á Alþingi.