137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[13:02]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað alveg rétt að oft og tíðum hafa ýmsir stjórnarandstöðuflokkar komið með ábendingar og tillögur. En þær tillögur sem hv. þingmaður vitnar til voru langt í frá jafnítarlegar í útfærslu, tímasetningu og yfirgripsmiklar og hér um ræðir. Hér er í rauninni á borðinu pakki sem hentar ríkisstjórninni, sem hentar Alþingi með öðrum tillögum sem komið hafa fram, til að mynda frá Framsóknarflokknum. Úr þessu þarf að vinna, úr þessu þarf að taka smjörið og þétta það þannig að það skili árangri, ekki að karpa um smáatriði. Auðvitað eru menn ekki endilega 100% sammála um öll atriði. Þannig hlýtur það alltaf að vera en kjarni málsins er sterkur, öflugur og brúklegur og á að vera hvatning fyrir íslenska þjóð í þeirri stöðu sem við erum og á líka að vera hvatning fyrir hæstv. ríkisstjórn.