137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Pétri Blöndal þegar hann segir að við veifum töfrasprota þegar við tölum um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru. Því fer fjarri. Við tölum um að þetta sé löng vegferð en þetta sé vegferð sem við þurfum að hefja því að hún sé nauðsynleg til þess að Ísland megi til framtíðar búa við stöðugan efnahag og í samfélagi evrópskra þjóða.

Varðandi ábyrgð Samfylkingarinnar á því ástandi sem hér er þá skirrumst við ekki við að játa það að að sjálfsögðu vorum við hér í ríkisstjórn á þessum tíma og vorum undir lokin á þessu tímabili, hinna myrku markaðsára, við völd. En ástandið var náttúrlega orðið þannig um sumarið 2007 að það var erfitt að vinda ofan af vandanum. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Vissulega er það svo að allir sem að þessu máli hafa komið og líta til fortíðar hefðu viljað gera margt öðruvísi en gert var.