137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:30]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu okkar sjálfstæðismanna um nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum vegna alvarlegs ástands efnahagsmála. Umræðan hefur að mestu leyti verið ágæt með nokkrum undantekningum þó. En ég ætla ekki að fara yfir það og ég ætlaði í sjálfu sér ekki að fara efnislega yfir einstaka þætti tillögunnar. Það hefur verið gert hér af þeim sem fyrr hafa talað og gert það ágætlega.

Ég vil aðeins fara yfir það af hverju við erum yfir höfuð að leggja þetta fram. Hvað er það sem rekur okkur sjálfstæðismenn áfram í stjórnarandstöðu þar sem við höfum nú ekki upplifað að það sé of mikið hlustað á þær annars góðu hugmyndir sem við höfum fram að færa? Af hverju erum við að leggja þær fram hér á Alþingi? Hvað vakir fyrir okkur?

Það sem minnst hefur verið á áður, það sem ég hræðist mest í núverandi ástandi, er ekki hvort okkur takist að komast út úr þessu, ég hef nú fulla trú á því. Það er ekki að við getum ekki komið okkur á einhvern hátt saman um það einhvern tíma. Það sem ég orðin hrædd við er vonleysi íslensku þjóðarinnar. Ég er hrædd við vonleysi og vantrú íslensku þjóðarinnar á framtíðinni. Ég heyri það mjög oft hjá því fólki sem ég tala við.

Við fórum öll í gegnum kosningabaráttu fyrir ekki svo löngu og þá talaði ég við mjög marga. Þá fannst mér þetta ekki vera svo ríkjandi viðhorf eins og ég finn núna. Það vil ég útskýra með niðurstöðu kosninganna en það er ekki víst að allir þeir sem hér eru í þessum sal taki undir það. En ég held að vonleysi á framtíðina hjá íslensku þjóðinni sé út af því að íslenska þjóðin upplifir ekki að ríkisstjórn sú sem nú er komin til starfa valdi þessu verkefni.

Verkefnið er sannarlega stórt og sannarlega ærið. Við þurfum öll að leggjast á árarnar og þess vegna fórum við sjálfstæðismenn í þá vegferð að leggja gríðarlega mikla vinnu í að búa til tillögur sem eru framkvæmanlegar, algerlega raunhæfar og munu koma okkur út úr þessum vanda.

Það er mjög hættulegt þegar þrótturinn fer úr samfélaginu og það er ekki í okkar anda. Við erum dugleg, við vitum það, og við höfum oft séð það mjög svart. Við höfum oft séð, eins og kollegi minn úr Suðurkjördæmi, hv. þm. Árni Johnsen mundi segja, bara bjargið fram undan. Það er engin brekka, það er bara bjarg.

En við höfum líka yfirstigið ótrúlegar hindranir, það er í þjóðarsálinni. Við höfum óbilandi vilja til að yfirstíga hindranir með kjarki og þrjósku og ekki síst með góðar hugmyndir að leiðarljósi. Þannig höfum við náð að koma okkur upp úr ótrúlega erfiðum aðstæðum í fortíðinni og þess vegna verðum við að útrýma þessu vonleysi. Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn lagt fram tillögur okkar í þessu efni ekki bara sem innlegg, heldur trúi ég því og treysti og vona það svo heitt og innilega að þessar tillögur verði teknar til gagngerrar skoðunar. Við bjóðum fram krafta okkar til þess að vinna með stjórnvöldum að því að koma þeim í framkvæmd vegna þess að við trúum því heitt og innilega að þessar tillögur munu hjálpa okkur við það og koma okkur úr þessum vanda.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram og stjórnarflokkarnir hafa haldið fram að ýmislegt hefur verið gert. Ég dreg það svo sem ekki í efa. Ég held bara að það séu ekki alltaf réttu hlutirnir sem gerðir eru og ég tel að búið sé að gera allt of flókna hluti. Einhver sagði, ég held að það hafi verið formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, að íslenska vísitölufjölskyldan á næstu árum yrði pabbi, mamma, tvö börn og tilsjónarmaður. Það er ekki að ástæðulausu sem það er sagt. Þessi greiðsluúrræði og hvað það heitir allt saman, eru allt of flókin og þau miða að því að aðstoða fólk sem þegar er komið í vanskil, sem komið er á þann stað að grípa verður til einhverra neyðarúrræða.

Með tillögum okkar, og þá sérstaklega aðaltillögu okkar til aðstoðar heimilunum í landinu, leggjum við til úrræði sem stöðvar þróunina. Það hjálpar fólki sem ekki er komið í vandræði, er enn þá í skilum en er að sligast undan hækkandi greiðslubyrði og jafnvel lækkandi tekjum. Við komum til móts við það fólk með því að leggja til í 50% niðurfellingu á greiðslubyrði af íbúðalánum til þess að koma því í gegnum þau þrjú ár sem við teljum að við þurfum til þess að ná aftur jafnvægi.

En við þurfum að stöðva þróunina og koma í veg fyrir að við þurfum að fara í enn frekari björgunaraðgerðir. Þessi aðgerð er auðveld miðað við það sem hún lagfærir, hún er tiltölulega auðveld í framkvæmd. Og það besta er að það er hægt að gera hana strax. Við þurfum ekki að fara á málstofur í Seðlabankanum eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir talaði um að við þyrftum nú öll að gera til að vita hvernig heimilin standa. Við vitum að þau standa illa og við vitum að við þurfum að koma þeim til hjálpar og það strax. Þess vegna hvet ég hæstv. ríkisstjórn til þess að skoða þessar tillögur og við lýsum okkur algerlega tilbúin til þess að koma til aðstoðar, leggja okkur öll fram vegna þess að það er okkur öllum í hag að íslenskt samfélag reisist við svo fljótt sem auðið er.

Annað sem ég vildi nefna sem er í tillögum okkar er áherslan sem ég sé því miður að í þeim tillögum sem ég les um, reyndar í fjölmiðlum. — Ég hef ekki orðið svo fræg að fá að vera þátttakandi í þessu ágæta samráði sem verið er að tala um úti um allan bæ. — En þær fréttir sem þaðan berast eru um skattahækkanir og niðurskurð. Jú, við erum með stórt fjárlagagat og það þarf að brúa það með einhverjum hætti. En ég leyfi mér að fullyrða að ef ríkisstjórnin ætlar sér að fara þá leið eina að hækka skatta og skera niður í ríkisútgjöldum munum við þá fyrst tryggja að kreppan vari hér að eilífu.

Við verðum að hugsa þetta í stærra samhengi og þess vegna leggjum við til þá leið sem verið hefur mikið til umfjöllunar, að huga að breytingum á skattlagningum í lífeyrissjóðina sem samkvæmt áætlunum gæti gefið okkur 40 milljarða í tekjur núna í staðinn fyrir að tekjurnar komi inn eftir að lífeyrisgreiðslur hefjast. Þetta er eitthvað sem hefur bæði kosti og galla og gæti dregið úr þjóðhagslegum sparnaði. En ég er mjög hlynnt því að þetta verði skoðað af fullri alvöru vegna þess að þetta er ný leið til þess að við getum dregið úr skattahækkunum sem munu drepa niður allt sem heitir frumkvæði og getu þeirra heimila sem þó geta staðið í skilum.

Við verðum að passa upp á skattstofnana. Nú hljómar þetta mjög stofnanakennt. Við verðum að fjölga skattgreiðendum, tryggja að til sé fólk til að borga skatta og það gerum við ekki með því að hækka skattana á þá sem enn eru aflögufærir vegna þess að þeir verða það ekki endalaust. Það er ekki hægt að kreista úr þeim steini mikið lengur.

Virðulegi forseti. Ég held að tillaga okkar sjálfstæðismanna sé annað og meira en bara innlegg í umræðuna. Þetta eru fullburða, mótaðar tillögur sem eru margar hverjar róttækar. Sumar hafa verið settar fram áður og eru kunnuglegar en við þurfum að leita allra leiða til þess að koma okkur út úr þeirri kreppu sem við erum í og það gerum við bara með því að leggjast á eitt. Þess vegna hvet ég hv. þingmenn — verst að hæstv. samgönguráðherra Kristján L. Möller er farinn úr salnum — til að horfa nú til framtíðar og leggjast á eitt við að koma okkur út úr þessu vegna þess að það er ekkert fengið með því að standa hér endalaust og karpa um fortíðina. Þetta viljum við gera. Þetta eru tillögur Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum og ég hvet þingheim allan til þess að kynna sér þær og hjálpa okkur sjálfstæðismönnum við að koma þeim í framkvæmd.