137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:20]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn við þetta frumvarp er sá að það gerir það að verkum að bátunum sem veiða sama magn af fiski mun fjölga, eins og lagt var upp með. Þegar hv. þingmaður talar um að vandinn og ástæðan fyrir frumvarpinu sé sé ördeyða í byggðunum, hvernig í ósköpunum fá menn það út að það muni hleypa krafti og afli í atvinnulífið að fjölga bátunum til að veiða sama magn af fiski? Það eina sem gerist er að sóknarkostnaðurinn vex. Hann hækkar, afraksturinn af fiskveiðunum minnkar þannig að ördeyðan verður meiri. Það verður meiri vandi í þessum sjávarplássum nema hugmyndin sé sú að auka kvótann, leyfa meiri fiskveiðar. Það séu fleiri fiskar sem menn vilja taka úr hafinu. Þá snýr málið auðvitað öðruvísi. En á meðan það er ekki þá standa menn frammi fyrir þessu.

Síðan er það ástæðan fyrir því að ég spurði hv. þingmann: Hvers vegna? Hvaða lærdóm dregur hv. þingmaður af reynslunni? Ástæðan fyrir að ég spyr er sú að þetta er ekki í fyrsta skipti sem við ræðum þessi mál hér í þingsal. Þetta er eitt af þeim stóru málum sem hafa verið til umfjöllunar árum saman og áratugum saman. Og við erum búin að fara í gegnum ýmis stjórnkerfi fiskveiðanna. Þess vegna hefur safnast fyrir heilmikil reynsla um hvaða áhrif það hefur t.d. þegar við förum þá leið sem hv. þingmaður er að mæla hér fyrir.

Þá skiptir mjög miklu máli að menn hafi lært af þeirri reynslu. Lagt það á sig að lesa þar um og læra og sjá hvaða afleiðingar þetta hefur allt saman haft. Af því að reynslan er mjög góður kennari. Þess vegna sjá menn t.d. alveg augljóslega fyrir ýmsar afleiðingar af þessu frumvarpi. Það er þess vegna sem ég spurði hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur hvaða ályktanir hún dragi (Forseti hringir.) af reynslu þeirri sem við Íslendingar höfum fengið í þeim þáttum sem ég sérstaklega nefndi sem er dagakerfið og skrapdagakerfið þar áður og ýmsar aðrar slíkar tilraunir sem (Forseti hringir.) gerðar hafa verið.