137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

nýting orkulinda og uppbygging stóriðju.

[14:34]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu hefur klofið íslenska þjóð í andstæðar fylkingar allan síðasta áratug og gott betur. Stóriðjustefnan var fyrirferðarmesti þátturinn í atvinnupólitík þeirrar ríkisstjórnar sem sat að völdum frá 1995–2007. Sú stefna skildi eftir djúp sár í þjóðarsálinni og gjá milli stóriðjusinna annars vegar og náttúruverndarsinna hins vegar. Rétt eins og hermálið á síðari hluta 20. aldar var stóriðjustefnan alvarlegasti klofningsþátturinn í íslenskum stjórnmálum í lok aldarinnar og fram á allra síðustu ár.

Sú ríkisstjórn sem nú situr vill skapa frið um atvinnuuppbyggingu í landinu og móta nýja heildstæða atvinnustefnu í samráði við sveitarfélög, aðila vinnumarkaðarins og háskólasamfélagið. Forsendan er sú að byggt verði á fjölbreyttu atvinnulífi, m.a. í þeim tilgangi að auka áhættudreifingu í þjóðarbúinu, skapa jafnræði milli atvinnugreina og vistvæna atvinnuuppbyggingu í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þetta þýðir með öðrum orðum að vægi hinnar hefðbundnu stóriðju, sem einkum hefur birst í uppbyggingu álvera, mun minnka en sköpuð verða skilyrði fyrir því að aðrar greinar geti dafnað við hlið þeirra greina sem nú skapa mestar útflutningstekjur, þ.e. sjávarútvegs og áliðnaðar.

Umræðan um stóriðjuuppbyggingu hefur oftar en ekki legið í þeim farvegi að valkostirnir séu á milli náttúruverndar annars vegar og atvinnuuppbyggingar hins vegar, valið standi á milli þess að gera ekki neitt eða búa til ný störf. Þetta er sem betur fer ekki svo og eins og fram hefur komið í máli hæstv. iðnaðarráðherra eru nú í undirbúningi fjöldamörg verkefni sem tengjast grænum hátækniiðnaði sem nýtir endurnýjanlega orku en veldur mun minni eða jafnvel engri losun gróðurhúsalofttegunda. Þar má nefna gagnaver, kísilhreinsun og framleiðslu á sólarrafhlöðum til notkunar í sólarorkuiðnaði, vinnslu á koltrefjum til notkunar í málmiðnaði og svo mætti lengi telja.

Tækifærin til grænnar uppbyggingar atvinnu eru næg en vandamálið er skortur á fjármagni og fyrirliggjandi orku. Þess vegna er væntanleg rammalöggjöf um (Forseti hringir.) erlenda fjárfestingu mikilvæg og þess vegna er rammaáætlun um nýtingu og verndun náttúrusvæða lykilatriði.