137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

undirbúningur að innköllun veiðiheimilda.

6. mál
[15:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Spurt er um fyrirætlanir hæstv. sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða með innköllun veiðiheimilda að markmiði og hvernig hæstv. ráðherra hyggst vinna að þeim breytingum.

Í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Lög um stjórn fiskveiða verði endurskoðuð í heild með það að markmiði að leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka“ — eins og segir í lið f í þeirri upptalningu.

Nýverið tilkynnti sjávarútvegsráðherra að hann hygðist, með vísan í þessa stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, stofna starfshóp um endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Skipaður verði starfshópur er vinni að endurskoðuninni og kalli til samráðs hagsmunaaðila og sérfræðinga.“

Í tilkynningu frá hæstv. sjávarútvegsráðherra segir hins vegar á dögunum að í starfshópi hæstv. ráðherra eigi eftirfarandi hagsmunasamtök fulltrúa, með leyfi forseta:

„… Landssambandi íslenskra útvegsmanna einn fulltrúa, Landssambandi smábátaeigenda einn fulltrúa, Sambandi íslenskra sveitarfélaga einn fulltrúa, Samtökum fiskvinnslustöðva einn fulltrúa, Starfsgreinasambandi Íslands ...“— matvælasviði — „… Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands … Félagi vélstjóra og málmtæknimanna …“.

Þá segir enn fremur í tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins, virðulegur forseti, um starfshópinn:

„Honum er gert að skila af sér álitsgerð fyrir 1. nóvember nk. Á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta sem hann bendir á, mun ráðherra ákveða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.“

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að hagsmunaaðilar skuli kallaðir til samráðs, ekki að þeir eigi að ákveða þá valkosti sem ráðherra vinnur út frá. Fulltrúar hagsmunasamtaka, sem sagt hafa í opinberri umræðu að aldrei muni skapast sátt um fyrningarleið, að þeir muni aldrei sætta sig við hana, eiga nú að sitja í vinnuhópi sem ákveður þann grundvöll og velja valkosti sem ráðherra ákveður um frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar, samkomulagi Vinstri grænna og Samfylkingar um ríkisstjórn, samningi flokkanna á milli, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„… og miðað við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun taki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010.“

Í tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins segir að fari allt að óskum megi búast við frumvarpi á haustþingi 2010.

Ekki verður unnt að hefja innköllun og endurráðstöfun þann 1. september ef það er ætlun hæstv. ráðherra að leggja fram frumvarp á haustþingi 2010 nema það hausti mjög snemma á næsta ári.

Hefur ráðherra hafið undirbúning að breytingum á lögum um stjórn fiskveiða með innköllun veiðiheimilda að markmiði? Hvernig hyggst ráðherra vinna að þeim breytingum?