137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

undirbúningur að innköllun veiðiheimilda.

6. mál
[15:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir nálgun hans á þessu máli í ræðunni. Ég fagna því að hann ætlar að nálgast þetta stóra og erfiða mál af mikilli skynsemi, að ég tel. Hann hefur ákveðið að skipa samráðshóp eða nefnd þar sem fjölmargir aðilar koma að til að fara yfir þetta mál. Ég tel að í raun sé mjög góð lending í þeirri stöðu sem við erum komin í. Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af því hvernig hv. þm. Róbert Marshall talaði áðan um að samráð ætti ekki að eiga sér stað í starfshópnum heldur vera kurteisislegt spjall, ef ég skildi hann rétt, við þá aðila sem eiga þarna hagsmuna að gæta. Hins vegar hefur Samfylkingin einhliða boðað, án þess að ræða við nokkurn aðila, að það eigi að fyrna aflaheimildir eða fara svokallaða fyrningarleið. Það er mjög sérstakt að setja slíkt fram í svona stóru og alvarlegu máli (Forseti hringir.) án þess að leita ráðgjafar um það.