137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

hvalveiðar.

64. mál
[15:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir að það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að nýta hvalinn. Ekki veitir okkur af gjaldeyristekjunum. Ég vil líka beina til ráðherra að ég held að það sé líka mjög mikilvægt að menn setji sér einhver langtímamarkmið til þess að menn geti farið að byggja upp einhverja vinnslu og aðstöðu til þess að verka hvalinn og koma honum í verð til lengri tíma.

Það er líka gríðarlega mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að fjölgun hvala á undanförnum áratugum og árum hefur brenglað öllu vistkerfinu í hafinu, þ.e. ef við nýtum ekki hvalinn þá erum við að brengla vistkerfið og þar af leiðandi mun okkur ganga hægar að byggja upp fiskstofnana sem er gríðarlega mikilvægt.

En hins vegar tek ég undir að það er líka mikilvægt að menn komi sjónarmiðum sínum á framfæri þannig að menn verði ekki undir hjá einhverjum öfgasamtökum og svoleiðis rugluliði þarna úti í heimi. Það er því mikilvægt að Íslendingar kynni málefni sín.