137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

staðgöngumæðrun.

86. mál
[17:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir beinir til mín þeirri fyrirspurn hvenær sé að vænta niðurstöðu vinnuhóps heilbrigðisráðuneytisins um siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni varðandi staðgöngumæðrun. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er mjög mikilvæg umræða sem er tilfinningaþrungin, snertir tilfinningar þeirra sem í hlut eiga, og skiljanlegt að þeir vilji hraða þessari vinnu. Hins vegar má ekki vekja falskar væntingar og ég skal reyna að svara þessu á eins raunsannan hátt og ég get.

Eins og fram kom í máli hv. þingmanns skipaði forveri minn í starfi heilbrigðisráðherra vinnuhóp í byrjun þessa árs, í janúar, til að skoða álitaefni varðandi staðgöngumæðrun og hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun hér á landi. Það eru þrír aðilar í vinnuhópnum, sviðsstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, háskólakennari og aðstoðarlandlæknir. Vinnuhópurinn hefur leitast við að kynna sér stöðu þessara mála í öðrum löndum, einkum í Evrópu, og greina helstu siðfræðileg, læknisfræðileg og lagaleg álitaefni sem tengjast þessu efni. Staðgöngumæðrun er bönnuð í flestum Evrópuríkjum, m.a. alls staðar á Norðurlöndunum. Í Bretlandi er staðgöngumæðrun hins vegar heimil en samningar um hana mega ekki vera á viðskiptalegum grundvelli. Vinnuhópurinn hefur boðað ýmsa aðila á fundi sína í því skyni að afla upplýsinga og leita eftir sjónarmiðum, þar á meðal fulltrúa Tilveru, samtaka um ófrjósemi, og sérfræðinga á sviði tæknifrjóvgana, kvensjúkdómalækna og félagsráðgjafa.

Eins og ég gat um áðan er ljóst að hér er um að ræða afar viðkvæmt málefni og nauðsynlegt að huga rækilega að hagsmunum allra þeirra sem málið varðar, þ.e. væntanlegra foreldra barnanna og síðast en ekki síst staðgöngumæðra. Skoðanir þeirra sem komið hafa á fund hópsins á því hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun eru skiptar. Þeir sem eru meðmæltir því að leyfa staðgöngumæðrun telja þó að setja þyrfti ströng skilyrði um hvenær slíkt yrði heimilað og allir eru þeir sammála um að nauðsynlegt sé að ákvörðun um hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun sé vandlega undirbúin og fram fari almenn umræða um málið áður en ákvörðun er tekin. Ég er mjög eindregið sammála því sjónarmiði. Það er mikilvægt að efna til umræðu um þau álitamál sem hér er um að ræða þó að ég hafi mikinn skilning á því að þeir sem í hlut eiga, og tek undir það með hv. þingmanni, vilji hraða málinu eins mikið og hægt er. En umræða af þessu tagi krefst líka tíma. Þetta er ekki eingöngu spurning um að safna upplýsingum heldur er þetta spurning um að efna til umræðu áður en lögum er breytt.

Ég vil þannig undirstrika mikilvægi þess að ákvörðun um hvort heimila eigi staðgöngumæðrun verði vandlega undirbúin og ég heiti því að efna til almennrar umræðu um málið áður en slík ákvörðun er tekin. En til að skapa ekki falskar væntingar erum við ekki að tala um niðurstöðu á næstu vikum eða mánuðum, þetta mál tekur lengri tíma en svo. En ég heiti því að leggja að hópnum og þeim sem standa að þessari vinnu að vinna ötullega að því að það dragist ekki um of að komast að niðurstöðu.

Ég vona að ég hafi svarað fyrirspurnum hv. þingmanns.