137. löggjafarþing — 21. fundur,  16. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:18]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér hefur oft fundist felast í orðum þeirra sem hafa talað af hálfu minni hlutans um þetta mál að Íslendingar séu að uppistöðu til hálfgerð fífl, að fólk sé fífl, að sjómenn séu kjánar og þeir kunni ekki fótum sínum forráð, rói út í vitleysuna án þess að taka veðurspá hvað þá meira. Sveitarstjórnarmenn bættust nú við hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni áðan, að þeir vissu ekkert um hvað þeir væru að tala, allra síst norður í Eyjafirði og þó svo að sveitarstjórnarmenn þar samþykktu það og hvettu til þess að farið væri í að endurskoða lög um stjórn fiskveiða vissu þeir ekki um hvað þeir væru að biðja. Hér hefur verið rætt líka, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, að ferðaþjónustan muni fara illa út úr þessu. Hvað sögðu ferðaþjónustuaðilar, virðulegi forseti, þegar þeir komu fyrir nefndina? Þeir sögðu að þeir mundu líklega fara betur út úr því að fara út í þetta kerfi, handfærakerfi, smábátakerfi en að vera í ferðaþjónustunni. Er það svo slæmt? Er það svo djöfullegt að menn finni sér annan farveg í lífinu, að þeir hagnist meira á því að vera í atvinnurekstri af því taginu en að læsa sig fasta einhvers staðar þar sem þeir hafa engan hagnað? Ég held ekki. Ég hélt að það væri m.a. markmiðið að hvetja menn til að finna sér farveg þar sem þeir skila nógu miklu bæði til sjálfs sín og til samfélagsins.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi það áðan hvernig reynslan af þessu mundi verða í framtíðinni þegar við færum að líta til baka, að bátum mundi fjölga og fjölga þar til hagkvæmnin hyrfi úr þessu, um leið og smábátasjómenn mundu sjá það í ár að hagnaður væri í þessu mundu þeir flykkjast í þetta og ekki hætta fyrr en hagnaðurinn væri horfinn, allir farnir á hausinn, allir farnir að tapa. Með öðrum orðum, fólk er fífl að hans mati.