137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins. Ég segi nú: Ekki seinna vænna. Reyndar er frumvarpið frekar lítil breyting. Aðallega er verið að einblína á efnahagsmál sem eru reyndar afskaplega mikilvæg sem stendur en maður hefði gjarnan viljað sjá metnaðarfyllra starf og það á kannski eftir að koma.

Ég get á margan hátt tekið undir það sem hér hefur verið lagt til. En ef maður kemur að lagasafninu og ætlar að skoða t.d. hluti um bætur, t.d. barnabætur, hvar skyldi maður þá leita að þeim? Í skattalögunum, frú forseti. Tekjuöflunartæki ríkissjóðs — þar leitar maður að barnabótum. Hvar skyldi maður finna ákvæði um húsnæðisstyrki eins og vaxtabætur? Það er líka í skattalögunum og heyrir undir fjármálaráðherra. Hvar skyldi maður finna bætur eins og sjómannaafslátt — sem er nú reyndar spurning hvort eru bætur til sjómanna eða útgerðar, sennilega til útgerðar? Það finnur maður líka í skattalögunum. Síðan heyra lífeyrissjóðirnir, sem greiða svona helming af lífeyri í landinu, undir fjármálaráðuneytið, merkilegt nokk. Tryggingastofnun og heilbrigðisráðuneytið, þetta heyrir hist og her undir ráðuneyti, út og suður. Þetta er ekki bara afskaplega hvimleitt heldur veldur því að skipulag þessara mála er allt einhvern veginn í molum. Það er ekkert samræmi.

Ég nefni t.d., frú forseti, að ekkert hefur verið rætt hér á Alþingi um skerðingar lífeyrissjóðanna vegna hrunsins. Það er kannski vegna þess að allir þingmenn völdu sér besta lífeyrissjóð í landinu, sem er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Þeir völdu hann í vetur og hann sætir engum skerðingum. En það þarf að hækka iðgjöldin til hans, þ.e. að hækka skatta á hina sem borga í almennu sjóðina. En þetta hefur ekkert verið rætt, sennilega vegna þess að lífeyrissjóðirnir heyra undir fjármálaráðuneytið.

Lengi hefur verið talað um að slengja saman atvinnuvegaráðuneytunum, landbúnaðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og iðnaðarráðuneyti, og taka hugsanlega hluta af viðskiptaráðuneytinu inn í það líka. Ekki er gerð tilraun til þess í þessu frumvarpi og hefði getað sparað ansi mikið því að ég hygg að sérstaklega í landbúnaðarráðuneytinu, sem er orðið mjög verkefnalítið, er eiginlega bara farið að fjalla um menntamál því að landbúnaðarháskólarnir falla undir landbúnaðarráðuneytið — það væri mjög skynsamlegt að sameina þessi ráðuneyti öll og flytja þá menntamálin undir menntamálaráðuneytið. Ég tel því að hér sé mjór vísir að einhverju sem getur orðið meira og ég ætla að vona að hæstv. ríkisstjórn standi í stykkinu og haldi áfram að breyta. Því það er rétt sem hér hefur komið fram í umræðunni að eftir svona áfall og eftir svona mikið hrun er tækifæri til breytinga.

Ekki er heldur tekið hér á skipulagi stjórnsýslunnar og ég hef grun um það, frú forseti, án þess að það hafi verið kannað sérstaklega, að skipulag stjórnsýslunnar skýri að hluta til þau viðbrögð sem urðu við hruninu sem sumir segja að hefðu getað verið skipulegri og markvissari. Stundum var utanríkisráðuneytið t.d. að semja um Icesave, stundum var það fjármálaráðuneytið, stundum var það viðskiptaráðuneytið og menn voru sendandi pappíra og minnisblöð út og suður. Það er því ekki spurning að skipulag stjórnsýslunnar má bæta mjög mikið og ég ætla að vona að hv. nefnd sem fær frumvarpið til skoðunar skoði aðeins hvernig skipulagi stjórnsýslunnar er háttað.

Ég hef þó mestar áhyggjur af því, frú forseti, að við erum að fjalla hér um mjög mörg stór mál á mjög stuttum tíma. Mér finnst menn ekki vera markvissir í störfum sínum. Hér hefur í allan dag verið rætt um Icesave-reikningana. Það er mjög stórt mál, verulega stórt, og mundi duga venjulegum þjóðþingum í einhvern tíma. Svo erum við að fjalla um Evrópusambandið. Verið er að leggja til að Ísland gangi í Evrópusambandið sem mun, ef af verður, binda öll ráðuneyti meira og minna í þau verkefni í tvö eða þrjú ár. Hver á þá að sinna hruninu og stöðu heimila og fyrirtækja? Hver á að taka á vandamálunum ef öll stjórnsýslan er bundin við það að sækja um Evrópusambandið? Svo erum við meira að segja með fjárlögin fyrir 2009. Árið er nánast hálfnað og ekki er enn komið á hreint hvernig eigi að vinna fjárlögin, og tillögur eru bara væntanlegar í dag um það. Menn eru að tala um þjóðaratkvæðagreiðslur og ræða það. Það er verið að gera alla hluti á sama tíma. Maður óttast dálítið að það sé dálítið ofmat á getu Alþingis til að leysa mjög stór mál þannig að vit sé í.

Það kom t.d. fram í dag, í umræðu um Icesave, að það er greinilegt að menn hafa ekki gert á þessu áhættugreiningu. Það er alveg með ólíkindum að menn ætli sér að fara út í svona stórt dæmi án þess að hafa gert á því áhættugreiningu — hvað eru miklar líkur á því að meira en 100% greiðist, hvað eru miklar líkur á að minna en 30% greiðist o.s.frv. — þannig að menn átti sig á því hvaða áhættu þeir eru að taka fyrir hönd þjóðarinnar. Það er greinilegt á svörum hæstv. forsætisráðherra að það hefur ekki verið gert. Því hún nefndi nánast, ég veit ekki hvort hún hefur sagt það orðrétt, að það væru engar líkur á því, 0% líkur á því, að það greiddist minna en 30%. Ég fullyrði sem líkindafræðingur að það eru ákveðnar líkur á því. Þær eru til og ég hef grun um að þær séu löngu reiknaðar og liggi fyrir í greiningardeild og áhættustýringardeild Landsbankans. Þetta liggi allt saman fyrir.

En menn vaða áfram inn í þessi mál. Mér finnst hætta í því fólgin, frú forseti, að taka svona óskaplega mörg mál fyrir í einu og vinna þau meira og minna ekki nægilega vel.