137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:56]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Við fyrsta lestur frumvarpsins má sjá margt í því sem horfir til betri vegar. Margar af þeim tillögum sem þarna eru lagðar fram fyrir þingið eru þarfar og eru til mikils gagns, skipulagsbreytingar. Þetta er hins vegar stórt og viðamikið verkefni og ég hef ákveðnar efasemdir um að nú sé rétti tíminn til að fara í slíka vinnu þrátt fyrir að hér séu mörg góð verkefni og ég styðji mörg þeirra.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á hér áðan, að mörg stór verkefni liggja fyrir þessu þingi. Það er Evrópusambandsaðild, sem ég hygg að ég og hv. þingmaður séum sammála um, við munum vonandi báðir fella þá tillögu. Ég mun fylgja sannfæringu minni í því máli eins og alls staðar annars staðar. Síðan er það náttúrlega, eins og hann kom inn á, Icesave-málið. Rétt eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á hér áðan þá er það mál líka hér til umræðu. Það er náttúrlega alveg rétt að því fylgir mikil vinna.

Ég náði ekki að svara hv. þingmanni áðan varðandi það mál — hann kom mjög rækilega inn á það í sinni ræðu — en það er algjörlega rangt að ekki hafi verið ætlunin að Alþingi fengi allar upplýsingar í því máli. Það er algjörlega rangt hjá honum líka að þingmenn hafi samþykkt þetta mál án þess að hafa gögn í höndum.

Ég get bara sagt fyrir mitt leyti að sú heimild sem veitt var á þingflokksfundi fyrir þessu máli var á þann veg að þetta mál yrði lagt fram og það klárað en hins vegar var það alltaf til staðar að samningurinn kæmi og öll gögn kæmu. Ég hef ávallt sagt að ég mundi ekki taka afstöðu í þessu máli fyrr en öll gögn lægju fyrir. Hv. þingmaður er því þarna að leggja okkur þingmönnum Vinstri grænna orð í munn. En ég hef hins vegar sagt að vel kunni að vera að ég samþykki þetta en til þess þurfi maður að hafa öll gögn. Ég hef ávallt lagt áherslu á það þannig að þetta er svolítið úr lausu lofti gripið.

En svo við snúum okkur að frumvarpinu þá eru þættir í því sem ég hef ákveðnar efasemdir um. Í athugasemdum við frumvarpið kemur m.a. fram, í b-lið, þar fjallað er um að til fjármálaráðuneytis skuli flutt allt jarðnæði, þar á meðal þjóðlendur og jarðeignir frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti — ég hef ákveðnar efasemdir um þetta, í það minnsta að forsvar þessara jarða verði flutt yfir til fjármálaráðuneytis.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna hér í fyrirspurn frá hv. þm. Drífu Hjartardóttur, sem sat á þingi fyrir nokkru, sem varðar þetta mál. Þar kemur fram að 437 lögbýli séu ríkisjarðir — þessi fyrirspurn er frá árinu 2005 — þar af séu 62 lögbýli undir umsjón ráðuneytis, þ.e. Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla. Síðan séu lögbýli í ábúð 280. Það er mjög mikilvægt að þessi lögbýli, sem eru ríkisjarðir, og eru margar hverjar nýttar til búrekstrar, verði áfram í umsjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, að forræði yfir þeim verði að minnsta kosti ekki flutt yfir til fjármálaráðuneytisins.

Á 17. bls. í athugasemdum við einstaka þætti frumvarpsins er lítill kafli. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur þróunin innan landa OECD verið í þá átt að færa eignarhald fyrirtækja í eigu ríkisins frá hlutaðeigandi fagráðuneyti til eins ráðuneytis þar sem lögð er áhersla á ríkið sem eiganda. Markmið með breytingunum er m.a. að tryggja að ríkið hafi eina samræmda eigendastefnu til að auka trúverðugleika og einingu um hlutverk ríkisins sem eiganda.“

Síðar í þessum kafla segir:

„Þá eru fagráðuneyti oft og tíðum kaupendur þjónustu frá opinberum hlutafélögum sem undir þau heyra. Slíkir samningar eru gerðir með þjónustusamningum og aðgreining hlutverka innan ríkisins er til þess fallin að efla kaupendahlutverk ríkisins gagnvart slíkri þjónustu.“

Ég hef ákveðnar efasemdir um þetta. Tökum til að mynda sem dæmi flutning Íslandspósts yfir til fjármálaráðuneytisins og þessa skilgreiningu á kaupenda- og þjónustuhlutverki ríkisins. Mörg þeirra fyrirtækja sem þarna um ræðir eru einfaldlega grunnstoðir í samfélagi okkar og allt forræði og öll stjórnun þeirra á í mínum huga að heyra undir það fagráðuneyti sem það snertir. Að öðru leyti held ég að þetta mál hljóti málefnalega umfjöllun og fari til nefndar. Ég vonast til þess að í það minnsta það sem varðar ríkisjarðirnar í landbúnaðinum — að ríkisjarðir sem heyra undir landgræðslu, skógrækt og annað verði áfram í umsjá þeirra ráðuneyta sem þær eiga svo sannarlega að heyra undir.