137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:08]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í fyrstu biðjast velvirðingar á því að hafa ekki ávarpað hv. þm. Birki Jón Jónsson rétt.

Varðandi skilmála þarna vitnar hv. þingmaður enn og aftur til atriða sem ekki hafa verið birt þinginu. Það sem ég sagði í umræddu ríkisútvarpsviðtali var að ég teldi allar líkur á því að ég mundi styðja þetta samkomulag, það er alveg rétt. Ég mun hins vegar setja alla fyrirvara við það hvernig þessir samningar eru. Í stórum málum kynnir maður sér öll gögn og það mun ég gera. Það var með þeim fyrirvara, sem ég nefndi hér, að ég mundi kynna mér öll þessi gögn. Síðan tekur Ríkisútvarpið þetta upp eins og það vill. Það segir ekkert um hvort ég muni styðja þetta mál eða ekki. Það kemur bara í ljós þegar ég lít á þetta og fer yfir þessi gögn. Ég tel verulegar líkur á að ég muni gera það en hef allan fyrirvara á því.

Varðandi Evrópusambandið og Icesave og hvort það tengist að einhverju leyti þá vísa ég bara til þess að þetta sé eitthvað sem menn hafi slegið upp en ég vil engan veginn taka undir þetta. Ég ítreka enn og aftur að afstaða mín til Evrópusambandsins er óbreytt og ég mun fella það mál í þinginu og tengi það á engan hátt við Icesave og mun skoða Icesave sem sjálfstætt mál.