137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[11:58]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að verða vitni að því að hæstv. fjármálaráðherra var farinn að sakna gamla og góða Sjálfstæðisflokksins og verðum við að reyna að bæta úr þeirri brýnu þörf hans.

Mig langar að forvitnast aðeins um ákveðna þætti í greinargerð frumvarpsins sem koma fram á bls. 11 þar sem er yfirlit, tafla yfir aðgerðaáætlun í ríkisfjármálum. Gert er ráð fyrir að þörfin fyrir styrkingu á afkomu séu 20 milljarðar á árinu 2009 og bætt afkoma eins og hér segir séu 22,3 milljarðar. Þarna vantar síðan inn nettóstöðu, þ.e. að einhver útgjöld séu komin inn í ríkisreksturinn upp á móti þörfinni fyrir bætta afkomu sem hér er leidd fram, og nægir í því sambandi að nefna aukna fjárveitingu til Atvinnuleysistryggingasjóðs upp á 7 eða 8 milljarða. Hvenær má vænta þess að fá óskir um slíkt? Ég hefði talið eðlilegt að það væri hluti af þeirri umræðu (Forseti hringir.) og þeirri aðgerðaáætlun sem hér yrði lögð fram.