137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[12:32]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra þetta innlegg. Það vill svo til að við erum sammála um hættuna af því að ganga of nærri í niðurskurði í rekstri, sömuleiðis um hættuna af of miklum skattahækkunum, eins og kemur ágætlega fram í viðbrögðum m.a. verkalýðshreyfingarinnar í fjölmiðlum í dag við þeim tillögum sem hér liggja fyrir. En ég bendi á að það eru líka aðrar leiðir færar í stöðunni sem vert er að skoða. Ég nefni t.d. þær efnahagstillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram og hefur kynnt sem aðra nálgun að þessu verkefni. Við höfum m.a. varpað upp þeirri hugmynd að taka skattinn af lífeyrisgreiðslum áður en þær fara til sjóðanna í stað þess að bíða í 30, 40, 50 ár þegar lífeyririnn er tekinn út. Það er mat manna sem til þekkja að þarna sé möguleiki á því að nálgast um það bil 40 milljarða skatttekjur sem ríkissjóður á. Ég geri mér fullkomlega ljóst að þetta er flókið og erfitt en ég tel alveg einboðið að menn setjist yfir það og skoði þetta sem leið í stað þess að ganga nærri því sem við getum kallað tilfærslur eða rekstrargjöld ríkisins því að meginatriðið í stöðunni í dag er að reyna að halda úti framkvæmdastigi. Ég hefði álitið að við ættum að reyna að þjarma að rekstrinum eins mikið og við getum til að halda úti framkvæmdum.

Ég bendi á að það eru fleiri leiðir sem ekki hafa verið ræddar í dag m.a. þær sem koma fram í þeim bæklingi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur dreift og kynnt. Ég hvet því hæstv. fjármálaráðherra til að kynna sér þau efni og skora á hann að taka afstöðu til þess máls.