137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fjáraukalagafrumvarp verður það að sjálfsögðu unnið með algerlega hefðbundnum hætti og í samræmi við reglur. Það verður að sjálfsögðu haft samráð við fjárlaganefnd um það eins og vera ber þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa fjárlagabreytingaáhrif í för með sér innan fjárlagaársins. Það vill svo til að bæði formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa sjálfir verið einir aðalverkmennirnir í þessari vinnu þannig að ekki hefur skort á samráð, a.m.k. ekki við nefndarmenn meiri hlutans. Og reyndar hef ég líka átt langan og góðan fund með fjárlaganefnd þar sem farið var yfir þessi áform og þau kynnt fjárlaganefnd fyrir fram allnokkrum dögum áður en þau birtust á þingi. Ég held því að það sé ekki hægt að kvarta yfir því.

Varðandi greiðsluáætlun í sambandi við Icesave er að sjálfsögðu hægt að setja upp greiðsluáætlun í þessum efnum byggða á einhverju mati á mögulegri útkomu þessa máls á árunum 2016–2024 en það er það sem málið snýst um vegna þess að það kemur ekki til þess að ríkissjóður greiði eina einustu krónu varðandi Icesave næstu 7 árin eins og kunnugt er. Þar liggur hins vegar fyrir greiðsluáætlun á grundvelli eignasafns gamla Landsbankans og hægt er að sjá það hvaða eignir er reiknað með að skili sér þar á hverju ári inn á lánið til lækkunar höfuðstólsins sem þarna er á ferðinni. Það liggur því fyrir með ákaflega skýrum hætti og hefur Seðlabankinn haft veg og vanda af því í samráði við fjármálaráðuneytið að meta hina fjárhagslegu þætti þessa máls. Þannig er það og vantar ekkert upp á í þeirri vinnu, held ég. Það eru auðvitað greiðslubyrðin og greiðslugeta þjóðarbúsins gagnvart skuldbindingum sínum út á við í heild sem skipta hér öllu máli. Þá þarf að raða þessum afborgunum upp og stilla þær af á grundvelli bestu fáanlegra aðferða við skuldastýringu sem völ er á. Það mun verða mjög vandasamt verkefni hjá ríkinu á næstu árum (Forseti hringir.) að stýra skuldum sínum þannig að byrðarnar dreifist með viðráðanlegum hætti.