137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:48]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er virkilega áhyggjuefni þegar staða ríkissjóðs er svo slæm að nauðsyn er á að fara inn í almannatryggingakerfið og skerða bætur. Þessi lækkun á greiðslum í fæðingarorlofi er í raun og veru neyðarráðstöfun og mun, eins og hv. þingmaður benti á áðan, að einhverju leyti draga úr þeim góða árangri sem fæðingarorlofslöggjöfin náði hvað varðar að fjölga þeim körlum sem nýta sér rétt til fæðingarorlofs.

Það var mat ríkisstjórnarflokkanna að þessi lækkun á hámarksbótum væri betri leið til að ná fram sparnaði en að stytta fæðingarorlofið um einn mánuð því að reynslan sýnir okkur að það er erfiðara að breyta aftur og ná fram (Forseti hringir.) lengingu á fæðingarorlofinu ef farið hefur verið út í styttingu þess.