137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þetta er athyglisvert. Ég spurði þessarar spurningar kannski sérstaklega vegna þess að hv. þingmaður sagði í ræðu sinni áðan að þegar það frumvarp sem við ræðum nú var sett fram hafi sérstaklega verið höfð í huga áhrif þess á jafnrétti kynjanna. Ég man ekki hvernig þingmaðurinn orðaði það en það var eitt af þeim atriðum sem hún lagði áherslu á og ég spyr því aftur hvort hún telji þetta vera lið í því.

Síðan það sem þingmaðurinn sagði um að það væri auðveldara að lækka hámarksgreiðsluna en að stytta fæðingarorlofið. Út frá jafnréttissjónarmiðum, hefði ekki verið betra að fara hina leiðina sem þingmaðurinn kaus ekki að fara vegna þess að þá væri ekki verið að setja þetta fram þannig að þeir sem væru með hærri launin ættu erfiðara með að fara í fæðingarorlof, vegna þess að þeir yrðu fyrir meiri tekjumissi sem íslensk heimili kannski eiga ekki von á núna?

Þingmaðurinn vísaði líka til þess að reynslan væri sú að (Forseti hringir.) það væri erfiðara að lengja fæðingarorlof aftur (Forseti hringir.) þegar það hefði verið stytt. Í hvaða reynslu vísar þingmaðurinn? (Gripið fram í.)