137. löggjafarþing — 25. fundur,  26. júní 2009.

stöðugleikasáttmáli -- Icesave -- heilsutengd ferðaþjónusta -- raforkuverð til garðyrkjubænda.

[13:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp að ræða mál einnar atvinnugreinar. Við gætum svo sem verið að ræða málefni hvaða atvinnugreinar sem er því að það gengur hvorki né rekur í atvinnulífinu og sígur heldur á ógæfuhliðina. Auðvitað er von um að stöðugleikasáttmáli atvinnulífsins, ríkis og sveitarfélaga boði eitthvað gott hægt og rólega.

Það sem mig langaði að ræða hér og kannski í ljósi þess að fram undan er mikil garðyrkjuhátíð í Hveragerði núna um helgina — það er hinn gleðilegi hluti atvinnusköpunarinnar, öll stéttin og atvinnugreinin sýnir hvers megnug hún er og kemur saman öll í fyrsta skipti á Íslandi — að enn er óleystur vandi um raforkuverð til garðyrkjubænda. Það er mjög sérkennilegt í ljósi þess að mjög margir þingmenn, stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherrar hafa tekið undir að þetta sé mál sem auðvelt væri að leysa. Ég hef upplýsingar um að einstaka aðilar í greininni séu að gefast upp og það er mjög alvarlegt.

Markaðsaðstæður hér á landi eru hins vegar það góðar að það er pláss fyrir að stofna hér eina nýja stöð með 10–15 störfum. Það ætluðu menn að gera hér á vordögum en þeir gátu það því miður ekki vegna þess að efnahagsástandið er erfitt. Við erum að tala um að framleiða vöru sem er ekki bara holl og góð heldur er hún gjaldeyrissparandi í þokkabót og mundi skapa hér störf.

Ég vil beina þeirri spurningu til iðnaðarnefndar, þar sem ég hef upplýsingar um að nefndarmenn þar hafi fengið forustumenn garðyrkjubænda á sinn fund, hvort þeir séu að vinna að því að laga til að mynda gjaldskrá garðyrkjubænda sem miklar vonir voru bundnar við. Ekkert varð af því á fundi Rariks í gær frekar en fyrri daginn. Ég vil líka spyrja um hvort í smíðum sé reglugerð sem breyta mundi skilgreiningunni á þéttbýli og dreifbýli. Að síðustu langar mig að spyrja um hvort menn séu að velta því fyrir sér að afturkalla þá breytingu (Forseti hringir.) sem gerð var fyrr í vetur, koma á stöðugleika þannig að þessi grein geti sótt fram að nýju.