137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:15]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vonast eftir því að hæstv. fjármálaráðherra kveðji sér hljóðs í þessari umræðu á eftir því að ég lagði fjölmargar spurningar fyrir hæstv. ráðherra sem hann svaraði ekki, kannski í ljósi þess að hann hefur einungis tvær mínútur til andsvara en ég vænti þess að hæstv. ráðherra setji sig á mælendaskrá til að við getum fengið einhver svör við þeirri stöðu sem blasir við þjóðfélaginu í dag.

Ég spurði hæstv. ráðherra m.a. að því hvort ekki hefði verið gerð greiðsluáætlun áður en fulltrúar hans skrifuðu undir Icesave-samkomulagið því að aðstoðarmaður hæstv. ráðherra tjáði okkur þingmönnum það að núna væri verið að vinna að einhverri greiðsluáætlun.

Ég spurði líka hæstv. ráðherra um það hvort hann hefði yfirsýn yfir það hverjar væru heildarskuldir almennings hér á landi og þá með tilliti til sveitarfélaganna líka. Er það virkilega svo að ráðherra fjármála hafi ekki enn yfirsýn yfir það hvað íslenskt þjóðarbú skuldar? Ef hann hefur það ekki, frú forseti, hvernig getur þá hæstv. ráðherra stuðlað að því að skrifað verði undir himinháar skuldbindingar þar sem vaxtakostnaður íslensks almennings eftir sjö ár verður tugir milljarða kr. á ári, sem hægt væri að reka allt háskólasamfélagið fyrir á þriðja ár, alla háskólana, bara vextirnir á fyrsta ári? Þetta eru svo yfirgengilegar fjárhæðir. Þess vegna köllum við eftir því að hæstv. ráðherra leggi fram greinarbetri upplýsingar um raunverulega stöðu mála í þessu samhengi. Við erum að tala um framtíð íslensks samfélags og hvað við erum að skuldbinda íslenska þjóð til framtíðar litið. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra og það var ein af þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann rétt áðan: Verður það ekki örugglega svo áður en við leggjum hundruð milljarða til að stofna nýju bankana að alþingismenn fái aðgang að því að meta raunverulegt eignasafn bankanna þannig að við getum (Forseti hringir.) tekið upplýsta ákvörðun um það hvernig við meðhöndlum skattpeninga almennings?