137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég held að við séum enn á ný að sjá þessi miklu umskipti sem hafa orðið á Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Menn virðast algjörlega hafa misst sjónar á þeim hugsjónum, þeirri hugmyndafræði sem þeir gáfu kost á sér í fyrir þessar kosningar þannig að það er mjög undarlegt að heyra hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fullyrða að þjóðin hafi kosið Vinstri hreyfinguna – grænt framboð til að gera það sem þeir eru að gera. Ég veit ekki betur en að sú stjórnmálahreyfing og þeir hv. þingmenn sem tilheyra þeim flokki séu einmitt að gera það sem þjóðin kaus þá ekki til að gera. Þetta eru mjög einkennilegar fullyrðingar.

Ég held að það hafi líka komið fram í orðum hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar að á ný virðist Vinstri hreyfingin – grænt framboð vera búin að missa sjónar á hugmyndafræði sinni hvað varðar sparisjóðina. Það er mikil sorg í hjarta mínu yfir að sjá að svo sé vegna þess að þótt ég hafi ekki kosið þann flokk trúði ég (Gripið fram í: Nú, nú.) [Hlátrasköll í þingsal.] á orð þeirra þegar þau sögðu að þau ætluðu að standa vörð um sparisjóðina, (Gripið fram í.) ætluðu að standa vörð um stofnfjáreigendur og um landsbyggðina. Með þeim tillögum sem koma fram í þessu frumvarpi og sem ég þekki ágætlega sem nefndarmaður í viðskiptanefnd sé ég fram á að mörg sveitarfélög og margir einstaklingar muni lenda í miklum vandræðum ef farin verður sú leið sem hér er lögð upp af ríkisstjórninni.

Bara í Sparisjóði Bolungarvíkur eru 260 stofnfjáreigendur, langflestir einstaklingar sem sjá fram á að tapa allt að 733 millj. kr. í stofnfé án þess að hafa nokkurn tímann gengið á varasjóðinn með arðgreiðslur, selt stofnbréf í sjóðnum til þriðja aðila eða átt hlut í Existu, Kistu eða Kaupþingi.