137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

málefni Landhelgisgæslunnar.

[15:48]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mikill hátíðisdagur hjá okkur í dag því að áðan tókum við á móti nýrri, glæsilegri flugvél fyrir Landhelgisgæsluna og er vel við hæfi að það skuli bera upp á afmælisdag Gæslunnar sem stofnuð var 1. júlí 1926. Við stöndum á tímamótum í íslensku samfélagi og breytingar eru fram undan á mörgum þáttum. Landhelgisgæslan verður þar ekki undan skilin. Landhelgisáætlun sem lögð var fram árið 2007 af þáverandi dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni, sem hafði mikinn metnað fyrir hönd Gæslunnar, verður vart framkvæmd á næstu árum, því miður, og við því verður að bregðast. Rekstrarástand Landhelgisgæslunnar er með öllu óþolandi eins og staðan er í dag.

Það var vel við hæfi að Þórunn Hafstein, dóttir Hannesar Hafsteins, fyrrverandi forustumanns Slysavarnafélagsins, gaf nýju varðskipi okkar nafnið Þór fyrir stuttu. Þór var nafnið á björgunarskipi okkar sem björgunarsveitin í Vestmannaeyjum stóð fyrir kaupum á til landsins og er í raun forsaga Landhelgisgæslunnar. Mér brá satt að segja í brún þegar sögur heyrðust um að til stæði að leigja þetta nýja varðskip okkar. Þór er fyrsta endurnýjun okkar í varðskipum í 35–40 ár og hefur mikið vatn runnið til sjávar á þeim tíma, aðstæður eru allt aðrar en þegar við byggðum Ægi og Tý. Slíkt slys má ekki henda að við leigjum þetta skip frá okkur.

Það eru nokkur grundvallaratriði sem við verðum að hafa í huga þegar endurmetin verður forgangsröðun í málefnum Gæslunnar, öryggi sjómanna okkar og landsmanna verður að vera þar í forgrunni. Varðandi flugið höfum við náð þeim mikilvæga áfanga í dag að ný vél er komin til landsins. Það verður að tryggja rekstur hennar sem kostur er því að hér er um mikilvægt eftirlits- og björgunartæki að ræða. Það verður að skoða alla möguleika á samnýtingu vélarinnar fyrir aðra opinbera aðila svo sem Flugmálastjórn og einnig hvort skynsamlegt geti verið að eiga eitthvert samstarf við aðra flugrekstraraðila í landinu.

Í skiparekstri verður að leggja áherslu á að Þór komi til landsins um leið og hann er tilbúinn. Það eru mörg atriði sem mæla með því og ég vil sérstaklega nefna dráttargetu skipsins en það er hannað sem dráttarskip en ekki varðskip, það hefur um tvöfalda dráttargetu eldri skipanna. Í skipinu er nýtískubúnaður til að beita við mengunarslys, þar er búnaður til að gefa þyrlum eldsneyti á flugi og svo má lengi telja. Auk þess er öll aðstaða til stjórnunar, skipulagningar og aðgerða og búnaður og öruggi áhafnar eins og best verður á kosið. Það verður að líta til aukins samstarfs við erlenda og innlenda aðila um rekstur á þessu skipi. Vil ég þar sérstaklega nefna skiparekstur okkar vegna hafrannsókna og þegar kemur að eftirliti og björgun sé ég fyrir mér möguleika á aukinni nýtingu Landhelgisgæslunnar og björgunarskipum Slysavarnafélagsins.

Þyrlurekstur Gæslunnar er kostnaðarsamur. Það þarf að endurskoða þær áætlanir sem fyrir liggja um kaup á þyrlum. Við verðum að horfa raunsætt á málin og sníða okkur stakk eftir vexti. Munur á rekstrarkostnaði stærri þyrlna og minni þyrlna Gæslunnar er um 130%. Vissulega hefur þyrla á stærð við Super Puma skipt sköpum við ákveðnar aðstæður svo hér verður að vanda til verka. Við verðum að líta til aukins samstarfs við nágranna- og vinaþjóðir okkar. Í dag er mjög gott samstarf milli Gæslunnar og danska sjóhersins og það getur verið gott fordæmi um mögulegt samstarf við fleiri vinaþjóðir.

Breytingar á rekstri Varnarmálastofnunar gefa tækifæri til að skoða aðkomu Vaktstöðvar siglinga, stjórnstöðvar Landhelgisgæslu, að þeim verkefnum sem sinna þarf á þeim vettvangi. Ég hef áður gagnrýnt svokallað loftrýmiseftirlit og get ekki séð sérstakan tilgang með því. Mikill kostnaður er því samfara, t.d. ber Landhelgisgæslan mikinn aukakostnað vegna sérstaks björgunarviðbragðs þegar herþotur eru í loftfimleikum sínum. Tillaga mín er að teknar verði upp viðræður við NATO og aðrar þær vinaþjóðir okkar sem hafa verið viljugar til samstarfs á þessum vettvangi um að beina kröftum sínum og búnaði sem hingað kemur frekar til þess að stuðla að auknu öryggishlutverki og björgunarviðbragði. Slíkt verður að gera í samvinnu við Landhelgisgæsluna sem er sú stofnun sem er vön að vinna með þessum aðilum. Hún er sú stofnun sem næst kemst því að hafa samstarf við heri og strandgæslur annarra ríkja og þar er öll reynsla og þekking til staðar.

Við Íslendingar höfum vissulega skyldum að gegna gagnvart stóru hafsvæði en þessar skyldur eru ekkert einkamál okkar og verða í raun ekki uppfylltar af okkur umfram það sem fjárhagsleg geta okkar leyfir. Það er því ákaflega mikilvægt, virðulegi forseti, að fram fari strax endurskoðun á starfsemi og uppbyggingu Landhelgisgæslunnar þannig að eytt verði þeirri óvissu sem landsmenn allir og starfsmenn búa við í dag. Við verðum að forgangsraða í þágu öryggis sjómanna, við verðum að forgangsraða í þágu landsmanna, við verðum að horfa til öryggis okkar, eigin öryggis. Við verðum að horfa til starfsmanna Landhelgisgæslunnar sem hafa margir áralanga reynslu af störfum við erfiðar aðstæður, þeir hafa það mikilvæga verkefni að sinna gæslu og björgunarstörfum á erfiðasta hafsvæði í heimi.