137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[19:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla og upplýsandi ræðu og einkum fyrir að lýsa því vel hvernig sparisjóðirnir unnu vissulega í umhverfi sem þeir ekki skópu og hvernig hann ítrekaði hlutverk þeirra í hinum dreifðu byggðum landsins þar sem viðskiptabankarnir stóðu sig ekki sem skyldi. Ég tek sérstaklega undir þessi orð hv. þingmanns.

Það er hins vegar mjög mikill og alvarlegur misskilningur þegar það liggur eiginlega í orðum hv. þingmanns að þetta frumvarp sé atlaga að sparisjóðunum og sparisjóðakerfinu í landinu. Það er rangt. Hér er verið að skapa grundvöll fyrir aðkomu nýrra stofnfjáreigenda og það verður ekki gert, hv. þingmaður, nema stofnféð sem fyrir er í sjóðunum verði fært að raunvirði.

Það er enn fremur mikill misskilningur og reyndar rangtúlkun á tilvitnuðum orðum í nefndarálit meiri hlutans að neyðarlögin hafi ekki gert ráð fyrir niðurfærslu stofnfjár. Það segir alveg skýrt og greinilega í 2. gr., það er ekkert hægt að misskilja það.

Ég vil bara segja að þegar menn síðan fóru að vinna á grundvelli reglnanna frá 17. eða 18. desember komust þeir að þeirri niðurstöðu að ekki væri ótvíræð heimild til niðurfærslu stofnfjár. (Gripið fram í.) Það er sú ótvíræða heimild sem menn eru að sækja hér vegna þess að menn vildu ekki fara í lagaþrætur um það.

Hver er hin leiðin, hv. þingmaður? Hún er sú að sjóðirnir fari lóðbeint á hausinn, að starfsleyfið verði tekið af þeim vegna þess að þeir uppfylla ekki kröfur í 77. gr. laganna (Forseti hringir.) um starfsleyfi vegna þess að eigið fé er uppurið eða neikvætt.