137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[21:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að þessi hugmynd um endurhverfu lánin hefur auðvitað mikið vægi. Bæði er það þannig að formaður viðskiptanefndar hefur fært þessa hugmynd inn í umræðuna og síðan hefur það verið upplýst að þessi hugmynd hafi komið úr fjármálaráðuneytinu. Við verðum því að líta svo á að hér sé um alvöruhugmynd að ræða sem beri að skoða með þeim hætti. Þess vegna er það í alveg rökréttu framhaldi af því að það sé skoðað að farið sé með sama hætti með önnur lán sem ríkið hefur og eru sem krafa á sparisjóðina. Ég vil í þessu sambandi undirstrika það sem ég hef verið að segja.

Hugmyndin eins og hún var kynnt í umræðunni gengur út á að notuð sé svipuð aðferð eins og var gert varðandi Sögu Capital og VBS, sem leiddi til þess að hægt var að tekjufæra hlut af þessari fyrirgreiðslu sem leiddi síðan til þess að eiginhlutfall fyrirtækjanna hækkaði, CAD-hlutfallið jókst sem auðvitað verður til þess að þörfin fyrir að færa niður stofnfé verður sem því nemur minni. Þetta er að mínu mati mjög áhugaverð hugmynd sem ég tel að eigi að vinna með og reyna að hraða í ljósi þess að nú stefnir í að það frumvarp sem hér er umræðu verði fljótlega að lögum.