137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

tvöföldun Suðurlandsvegar.

[10:48]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki nóg, hæstv. samgönguráðherra, að tala um Suðurlandsveg sem eitt af forgangsverkefnunum. Það var ákveðið í fyrri ríkisstjórn að tvöföldun Suðurlandsvegur yrði forgangsverkefni og yrði einkaframkvæmd. Þar opnaðist fyrst umræða um það að stórar framkvæmdir í almennum vegamálum yrðu einkaframkvæmd. Síðan leggur núverandi hæstv. samgönguráðherra það til að fyrsti áfanginn verði hefðbundin framkvæmd á vegum Vegagerðarinnar en ekki einkaframkvæmd. Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt miðað við það að reyna að flýta gangi verka af því að Vegagerðin hefur ekki verið liprust allra stofnana við að flýta fyrir gangi mála nema síður sé og þess vegna er það skýr og eindregin krafa að þetta mál verði sett í eðlilegan forgang. (Forseti hringir.) Það gengur ekki þegar hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. samgönguráðherra koma allt í einu úr Norðaustur- og Norðvesturkjördæmi að þá sé tekinn nýr kúrs. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það gengur ekki. (Gripið fram í.) Nei, það var búið að ákveða það fyrir löngu með fullum rökum og forsendum.