137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ágæta ræðu svo langt sem hún nær. Ég lít þannig á að við þurfum alltaf að ganga út frá stöðunni eins og hún er á hverjum tíma. Það er búið að skrifa undir þennan samning, því miður. Það er mjög ábyrgðarlaust en sú er staðan og ég held að allir hv. þingmenn, bæði stjórn og stjórnarandstaða ættu að reyna að vinna úr núverandi stöðu eins vel og mögulegt er. Nú byggir þessi samningur á áhættusömu mati á eignum Landsbankans og Íslendingar taka áhættuna af því mati. Það getur farið vel, að eftir 20 ár sjáum við kannski að allt greiddist. Eftir 20 ár sjáum við kannski, það greiddust aðeins 75% sem þeir reiknuðu með en það getur líka verið að það greiðist miklu minna og þá erum við í mjög slæmum málum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það kæmi til greina að við settum hámark á þessa ríkisábyrgð sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Ég er búinn að benda á þetta í allan vetur. Það er nefnilega hagur þjóðanna þriggja, Hollendinga, Breta og Íslendinga sem láta skattgreiðendur sína greiða þessar byrðar að Ísland geti borgað. Það er hagur þessara þjóða allra.