137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mínúta dugar mér ekki til að leiðrétta allar rangfærslur hæstv. ráðherra. Ráðherrann byrjaði á því að halda því fram fyrir nokkrum dögum að Ísland hefði um það bil 5 milljarða evra í útflutningstekjur og þar sem 5 milljarðar evra væri miklu hærri upphæð en þyrfti að borga af Icesave væri þetta ekki vandamál. Nú gerir hæstv. ráðherra þó sér grein fyrir að eitthvað af þessu fer aftur úr landi en gleymir grundvallaratriðinu, gleymir skuldsetningunni, gleymir því að mjög stór hluti af þeim erlendu tekjum sem koma hingað inn í landið fer beint út aftur í afborganir og vexti af lánum.

Hann gleymir fjármagnsliðnum, gleymir áhrifum of mikillar lántöku á liðnum árum. Hvar höfum við séð þetta áður? Hvar höfum við séð einhverja flaska á því að gleyma áhrifunum af of mikilli skuldsetningu? Var það ekki það sem fór með íslenska bankakerfið? Er ekki kaldhæðnin sú að íslenska ríkisstjórnin er nú að gera það sama með þjóðina og varð bankakerfinu að falli?