137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:03]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður að gera greinarmun á því hvort um sé að ræða samninga sem þurfi að leggja fyrir Alþingi eða ekki. Það er einfaldlega grundvallarregla þjóðaréttar að þeir menn sem hafa stöðuumboð, og það eru þeir menn sem koma fram fyrir hönd ríkisins, hvort sem þeir eru á vegum utanríkisþjónustu eða með öðrum hætti tilnefndir í samninganefnd ríkisins, hafa umboð til að gera samninga. Ég hef sjálfur sem starfsmaður utanríkisþjónustunnar oft skrifað undir Memorandum of Understanding og það hefur aldrei gerst að það hafi ekki verið virt af Íslands hálfu.

Eru menn þá að halda því fram að ráðuneytisstjórinn Baldur Guðlaugsson hafi verið að fara út fyrir umboð sitt? Það er það sem verið er að segja. Er það þess vegna sem það á ekki að virða þennan samning? Auðvitað er það þannig og það er grundvallarregla þjóðaréttar að þeir menn sem koma fram fyrir hönd ríkis á alþjóðavettvangi og skrifa undir plögg hafa til þess heimildir að undirrita plögg. Síðan kann eftir atvikum staðfesting samninga að vera háð samþykki þinga en það er þá venjulega undirritað með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu þess sem undirritar þannig að hann undirritar þá með fyrirvara þings.