137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekkert að tala um þátt Samfylkingarinnar í þessu öllu saman enda veit ég að það er bannað. Hins vegar ætla ég aðeins að fá að spyrja um stöðuna í dag. Ég vona að minni hæstv. ráðherra sé aðeins betra en varðandi stjórnarþátttökuna í fyrri ríkisstjórn.

Nú kom fram í fréttum í gær að erlendar skuldir Íslands séu mun hærri en upphaflega var gert ráð fyrir í nóvember síðastliðnum og hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn staðfest það og er talað um allt að 250% af landsframleiðslu. Í skýrslu AGS frá því í nóvember kom fram að ef skuldastaðan færi upp í 240% þá væri hún augljóslega óviðráðanleg. Er þá kannski ekki orðin spurning um það að við þurfum að óska eftir að öryggisákvæði komi í gildi á samningunum og við þurfum að setjast aftur niður með Bretum og Hollendingum og semja upp á nýtt? Það er alveg augljóst, alla vega miðað við skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að staða íslenska þjóðarbúsins er mun verri en gert var ráð fyrir.