137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða þingmál sem er harla óvenjulegt, skuldbindingar ríkisins til að gangast í ábyrgð fyrir greiðslu á risastórri upphæð sem um síðustu áramót stóð í 630 milljörðum. Núna vegna breytinga á genginu og vöxtum sem tikkað hafa frá áramótum er upphæðin komin í 720 milljarða. Hvernig því reiðir af í þinginu veltur á ýmsu, hvort þingið sannfærist um að þetta sé illskásti kosturinn í stöðunni, um að við höfum getu til að standa við þessar skuldbindingar og — þar ætla ég að tala fyrir sjálfan mig — hvernig þingið í stjórn og stjórnarandstöðu kemur að þessu máli.

Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að á þetta mál eigi að líta á annan hátt en önnur mál sem koma fyrir þingið. Það má ekki hafna í hefðbundnum hjólförum flokkastjórnmála. Þetta er mál sem við eigum öll að sameinast um að taka á sem Íslendingar óháð flokkslínum. Ég tel að við eigum að forðast persónulegt hnútukast. Það hafa verið gerð mjög mikil mistök á Íslandi á undanförnum árum og þar hafa margir komið að málum. Ég hef um árabil átt sæti í stjórn stærsta lífeyrissjóðs landsins. Ég hef verið þar stjórnarformaður. Ég hef átt þátt í að taka ákvarðanir sem hafa verið afdrifaríkar. Ég hef verið í hópi þeirra sem iðulega hafa haft efasemdir og það hafa fleiri í stjórninni en við reyndum að sannfæra hvert annað með því að leita ráða hjá besta fagfólki, hjá þeim sem við töldum búa yfir mestri þekkingu. Við spurðum út í krosseignatengslin, spurðum út í hversu traustar fjárfestingarnar væru líklegar í bönkunum, í fjármálafyrirtækjunum, í íslensku atvinnulífi sem við vildum öll gera allt sem við gætum til að styrkja. Þessi ráð dugðu skammt. Ég hef heitið því gagnvart sjálfum mér að taka ekki afdrifaríkar ákvarðanir sem skuldbinda annað fólk án þess að skilja hvað ég er að gera og án þess að þekkja alla málavöxtu. Það ætla ég að reyna að gera í þessu máli líka.

Ég ætla líka að fylgjast með því hvernig stjórnarandstaðan kemur að þessum málum sem Íslendingar, við sameiginlega, til að finna bestu lausnina fyrir okkar þjóð, eða hvort við látum pólitíska stundarhagsmuni ráða för, hvort verið geti að menn reyni að finna leiðir til þess eins að fella þá ríkisstjórn sem nú situr, ganga síðan til samninga á nákvæmlega sömu nótum og hér liggja fyrir. Gæti verið að það sé nokkuð sem vakir fyrir mönnum? (BJJ: Nei.) Ég mun fylgjast mjög vel með umræðunni vegna þess að það get ég alveg sagt mönnum og þingmönnum úr öllum flokkum að ég hef fyrir því mjög sterka sannfæringu að þörf sé á félagslega sinnaðri stjórn á Íslandi við þær aðstæður sem við búum við nú. En ég fylgist með málflutningi ýmissa úr stjórnarandstöðunni sem mér sýnist vilja áfram feta eftir „gömlu góðu leiðinni“, inn í heim markaðsvæðingarinnar með velferðarþjónustuna, með spítalana okkar, með skólana okkar. Þá segði ég við sjálfan mig: Það var verr af stað farið en heima setið.

Þetta er það samhengi sem ég mun horfa til þegar ég mynda mér afstöðu til þessa máls. Ég held að það sé sameiginlegur vilji okkar allra Íslendinga að standa við skuldbindingar okkar út á við og inn á við. Við skulum ekki dramatísera um of þegar við stöndum frammi fyrir því að tryggja rétt fólks sem taldi það varið að eiga allt að 3 milljónir á innstæðureikningi í íslenskum banka í útlöndum. Það eru fimm mánaða laun þingmanns. Ég græt það ekki óskaplega þó menn tapi þessum upphæðum. Ég græt það hins vegar miklu fleiri tárum ef við ætlum að láta íslenska láglaunamanninn, ef við ætlum að láta öryrkjann íslenska, ef við ætlum að láta framtíðarkynslóðir standa straum af tilkostnaði sem þær ráða ekki við. Skuldbindingarnar snúa nefnilega ekki bara út á við. Þær snúa líka inn á við. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því, þótt ég sé þeirrar skoðunar að við eigum að greiða lágmarksinnstæðutrygginguna eins og kostur er, þá held ég að sé ekkert svart/hvítt í því efni. Ég spyr: Ef innstæðutryggingarnar hefðu verið 5 milljónir talsins en ekki 300 þúsund eða þar fyrir innan hefðu þá ekki allir séð absúrdítetið — svo ég sletti á útlensku máli — að krefja 300 þúsund manna þjóð að standa skil á slíkri skuldbindingu? Það sæju allir menn. Hvar liggur þá greinarmunurinn á milli 100 þúsund innstæðureikninga og 5 milljóna slíkra reikninga? Hvar liggur munurinn á því að búa til sjóð sem á að verja eina eða tvær fjármálastofnanir og síðan heila þjóð sem liggur á hliðinni? Á þetta vildum við mörg láta reyna, og ég vil það enn, fyrir dómstólum hverjar væru í raun þjóðréttarlegar og lagalegar skuldbindingar Íslands. Þessu hafa Evrópusambandsríkin sem hýsa lánardrottna okkar neitað okkur um og fengið til liðsinnis við sig heimslögreglu kapítalismans í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem er að færa skrúfurnar upp eftir þumlinum á þjóðinni. Hvers vegna má ekki láta reyna á réttarstöðu okkar? Ég held að það sé vegna þess að minnsti vafi sem vaknar um fjármálakerfi heimsins er illur. Hann ógnar tilvist kerfisins. Hvers vegna má ekki láta á þetta reyna? Sú held ég að sé ástæðan. (BJJ: Nákvæmlega.) Mér finnst það dapurlegt hlutskipti svokallaðra vinaþjóða okkar að hafa tekið þátt í þessum dansi og þar horfi ég til Norðurlandaþjóðanna að undanskildum Færeyingum. Íslendingar hafa uppgötvað hið afstæða í tilverunni. Þeir hafa uppgötvað að í smæsta ríki getur orðið til banki sem býr til þriðja stærsta gjaldþrot í bankaheiminum síðan í kreppunni 1930. Kaupþing gerði það. Það er nefnilega ekkert samhengi á milli þess hve lítill þú ert og hve heimskur þú ert eða hve lítill þú ert og hve gráðugur og ósvífinn þú ert.

Ég man eftir bankastjóra sem kom fram í íslenskum fjölmiðli og sagði okkur að sinn banki væri ekki lengur íslenskur banki, hann væri bara banki. Nú höfum við fengið að kynnast því að hann var þegar allt kom til alls íslenskur banki. Það er á þessum vanda sem við þurfum nú að taka sameiginlega. Það er ágætt að rifja upp söguna. Það er ágætt. Það sem mér stendur efst í huga er hættan sem skapast af hjarðhugsun, að ánetjast tískusveiflum í stjórnmálum. Þær eru nefnilega alveg eins og í fataheiminum. Við munum eftir támjóu skónum og þykku sólunum. (Gripið fram í.) Jafnvel tveggja metra menn sem áttu engan draum stærri en að sýnast aðeins lægri í loftinu urðu að kaupa þykkbotna skó. Það var ekkert annað í boði. Það hefur ekkert verið annað í boði í íslenskum stjórnmálum en frjálshyggjan, markaðslausnir sem þjóðin hefur enga löngun til að kaupa, hefur ekkert viljað. Menn hafa þagað yfir slíkum lausnum í aðdraganda kosninga og síðan framkvæmt eftir á. Auðvitað hafa margir andæft og verið uppi með varnaðarorð. Ég horfi hér á hv. þm. Pétur H. Blöndal svo ég nefni mann úr annarri stjórnmálafylkingu en minni. (Gripið fram í.) Ég leyfði mér einhvern tíma að efast um ágæti þess að bankarnir endursköpuðu íslenskt þjóðfélag og ef ég ætti að velja á milli þotuliðsins og íslenska jafnaðarsamfélagsins þá mundi ég senda þotuliðið úr landi. Munuð þið eftir því hvað var hlegið hátt og munið þið eftir því hvernig tillögunum var tekið í þinginu frá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um að aðskilja með lögum viðskiptabanka og fjármálastofnanir? Það var hlegið út af borðinu. Þess vegna segi ég: Nú eigum við að byrja að hugsa upp á nýtt. Við eigum að hugsa alveg upp á nýtt. Við eigum saman að reyna að komast að niðurstöðu.

Varðandi bankana vil ég segja þetta: Þeir reyndu ekki aðeins að endurskapa íslenskt þjóðfélag. Það var alveg rétt hjá bankastjóranum að í vissum skilningi var hann ekki í forsvari fyrir íslenskan banka. Eignarhaldið var fyrir löngu komið úr landi. En það sem meira er, þeir höfðu líka stolið öllum peningunum og skotið þeim undan. Ég held að við fáum aldrei niðurstöðu í þessi mál, ég held að þjóðin verði með siðferðilega timburmenn í 300 ár ef okkur tekst ekki að leiða hið sanna og rétta í ljós hvað hér gerðist í bankahruninu, að finna peninga sem skotið var undan, færa þá heim til að verja stöðu íslenska velferðarkerfisins, launamannsins, öryrkjans og borga innstæðueigandanum í Hollandi og í Bretlandi sem við viljum svo gjarnan greiða. Það er þetta sem við eigum að gera. Við eigum að fara út í heim og segja við þessar þjóðir: Íslendingar vilja standa við sínar skuldbindingar en ekki meira, (BirgJ: Heyr, heyr!) ekki meira. (BJJ: Góð ræða.) (Gripið fram í: Mjög góð.)