137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Árna Johnsens þar sem hann vék að sjálfstæði þjóðarinnar og þeirri trú sem við höfum öll, að íslenskt samfélag sé eitt það besta í heimi og að við viljum byggja það áfram.

Mig langar líka að koma inn á frétt sem er nú á visir.is og var að mér skilst á Stöð 2 í kvöld. Hún lýsir í rauninni hvers konar hræðsla hefur gripið um sig hjá Samfylkingunni.

Hér stendur, með leyfi forseta:

„Líf ríkisstjórnarinnar ræðst af Icesave.“

Sérstakur hirðfréttaritari Samfylkingarinnar, Heimir Már Pétursson, skrifar svo:

„Ríkisstjórnin er sprungin og stjórnarkreppa blasir við verði Icesave-frumvarpið fellt á Alþingi.“

Spunavélin er byrjuð, frú forseti. Nú á að setja þrýsting á Vinstri græna til að þeir samþykki þetta frumvarp svo stjórnin falli ekki. Það vill nú svo skemmtilega til að a.m.k. Framsóknarflokkurinn og ef ekki fleiri flokkar í stjórnarandstöðu hafa lýst því yfir að þeir hafi engan áhuga á að fella ríkisstjórnina út af þessu máli, það snýst ekki um það. Samfylkingin verður að eiga það við sjálfa sig ef hún vill slíta þessu stjórnarsamstarfi, (Gripið fram í: Heyr.) þá á hún bara að gera það en ekki að reyna að klína því upp á Vinstri græna eða stjórnarandstöðuna.

Svo skrifar þessi sérstaki hirðfréttaritari Samfylkingarinnar, Heimir Már Pétursson:

„Áhrifamaður innan Vinstri grænna segir að ef þingmenn flokksins verði til þess að fella Icesave-samkomulagið sé ríkisstjórnin sprungin og spurning hvort flokkurinn sé búinn að vera pólitískt.“

Hugsið ykkur, og það er samfylkingarfréttamaður sem skrifar þetta og reynir að stilla samstarfsstjórnarflokknum upp við vegg með þessum hætti. Ég treysti því að virðulegir þingmenn og hv. þingmenn Vinstri grænna láti ekki fara svona með sig.