137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[13:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér málefni sparisjóðanna. Þannig er að sparisjóðirnir í landinu halda uppi mjög öflugu útibúaneti á landsbyggðinni og eru þess vegna gríðarlega mikilvægir fyrir byggðir landsins. Hins vegar hafa þeir ekki farið varhluta af þeirri holskeflu sem riðið hefur yfir efnahagslíf landsins og þess vegna er þetta frumvarp væntanlega komið fram. Það er í rauninni tvíþætt, það fjallar um aðgerðir til að leysa bráðavanda sparisjóðanna og hins vegar grundvallarbreytingar á því starfsumhverfi sem sparisjóðirnir starfa í.

Vissulega er gríðarlega mikilvægt að flýta þeirri vinnu er varðar björgunaraðgerðir sparisjóðanna og því ljóst að vinna þurfti hratt og vel í nefndinni að þeim vanda. Hins vegar er mér til efs að nægilega vönduð vinnubrögð hafi verið viðhöfð varðandi hinn hluta frumvarpsins, þ.e. þau ákvæði laganna sem snúa að grundvallarbreytingum í starfsumhverfi sparisjóðanna.

Vissulega á Alþingi að gæta að virðingu sinni og viðhafa vönduð vinnubrögð en maður hefur vissar áhyggjur af því að svo hafi ekki verið í þessu máli og að áherslan hafi dreifst í umræðunni varðandi þau atriði sem ég nefni, þ.e. bráðavandann annars vegar og hins vegar þau atriði er varða umgjörð sparisjóðanna.

Það sem er mikilvægt við sparisjóðakerfið í landinu er sérstaða þeirra og tengsl sparisjóðakerfisins við byggðirnar í landinu og samfélagið sem þeir eru reknir í. Stofnfjáreigendur koma margir hverjir innan úr samfélaginu og sparisjóðirnir hafa verið dyggir stuðningsmenn þess starfs, bæði æskulýðsstarfs og íþróttastarfs, sem fram hefur farið í þeim byggðum þar sem þeir eru starfræktir og þeir hafa tekið virkan þátt í því samfélagi þar sem þeir eru til staðar. Vissulega er þetta þeirra sérstaða og hana þarf að varðveita og það er þess vegna sem sparisjóðakerfið er enn til staðar og mikilvægt að halda því þannig. Hins vegar er óljóst hvort þessar breytingar koma til með að stuðla að því að þessi sérstaða haldist.

Í frumvarpinu eru nokkrar athyglisverðar breytingar. Í fyrsta lagi er þar heimild til að lækka stofnfé, heimildir til að sameina sparisjóðina öðrum fjármálastofnunum, þrenging á reglum um ráðstöfun hagnaðar eða arðs og áhersla á samfélagslega hlutverkið sem er vissulega fjallað um í frumvarpinu. Svo er heimild til að auka stofnfé og þá veltir maður því fyrir sér, þegar ríkið hefur komið inn með sitt framlag og hefur þar af leiðandi í rauninni tekið yfir sparisjóðina, hvort þá sé nægilegur hvati fyrir stofnfjáreigendur og fyrir nýja stofnfjáreigendur til að koma inn vegna þess að vissulega hlýtur það að vera tilgangurinn að hvetja stofnfjáreigendur til að bæta við stofnfé og hvetja til þess að nýir stofnfjáreigendur komi inn og viðhalda þannig og með því sérstöðu sparisjóðakerfisins. Þess vegna er það gríðarlega mikilvægt að breyting á lögum sem þessum innihaldi slíka hvata en það er vandséð að svo sé í þessu tilfelli og því er spurningin hver niðurstaðan af þessu öllu saman verður. Þegar þessar breytingar hafa gengið í gegn verða þá sparisjóðirnir til?

Það verður vart hægt að sækja aukið stofnfé til almennings nema stórir og sterkir hvatar séu fyrir hendi þannig að baklandið heima í héraði komi að því að bjarga sínum sparisjóði. Þess vegna ætti það að vera eitt af helstu markmiðunum í þeirri miklu vinnu sem hv. viðskiptanefnd hefur lagt í frumvarpið að fara vel yfir þetta atriði.

Ég átti þess kost að sitja nokkra fundi í nefndinni og var tíðrætt um þetta í nefndinni. Þangað komu margir gestir og menn voru sammála um að sparisjóðirnir væru mikilvægar stofnanir. Þeir eru kannski ekki allir kerfislega mikilvægir en hver og einn er mikilvægur fyrir sitt samfélag og það eru sparisjóðirnir sem sinna hinum dreifðu byggðum landsins og sparisjóðakerfið er stórt og mikið í Suðurkjördæmi t.d. En hvað mun gerast ef viðskiptabankarnir verða allir í eigu ríkisins og ekki næst að laða að nýja stofnfjáreigendur, hvað gerist þá? Verða þeir ekki einfaldlega á grundvelli nýju laganna sameinaðir bankakerfinu og sérstaða sparisjóðanna er þar með fyrir bí? Þetta er stóra spurningin og það er sú spurning sem á að ræða í umfjöllun um þetta frumvarp.

Þá er spurningin hvort hinir nýju sparisjóðir, ríkissparisjóðirnir, séu þá búnir að missa þessi tengsl við samfélagið og hvort þeir verði þá yfir höfuð áfram starfandi á landsbyggðinni. Það vekur líka óneitanlega spurningar fyrst hraðinn er svona mikill á þessu máli hvers vegna ekki var einfaldlega tekinn sá póll í hæðina að taka þessa bráðaaðgerðir fyrst og afgreiða þær, leggja áherslu á þær en taka síðan á haustþingi breytingarnar á lagarammanum almennt. Það er spurning sem ég tel rétt að velta upp og væri gott að fá skýringar frá formanni viðskiptanefndar á því hvort það hafi ekki verið rætt að skipta málinu upp á þann hátt. Ástæðan er náttúrlega einfaldlega sú að það virðist sem svo í þessu máli að löggjafinn hafi ekki að fullu verið búinn að vinna sína vinnu. Björgunaraðgerðagreinin er í 7. gr. og þar er fjallað um þær aðgerðir sem koma til vegna þeirrar neyðar sem sparisjóðakerfið hefur staðið frammi fyrir og ekki var útlit fyrir að framlag ríkisins á grundvelli neyðarlaganna mundi duga til að bjarga kerfinu, þannig að það hefði verið ágætt að einbeita sér að þeirri hlið frumvarpsins og hraða þeirri vinnu og leggja alla áherslu á það mál. Þær breytingar sem frumvarpið felur í sér eru gríðarlega miklar, þær varða landsbyggðina sérstaklega mjög miklu og bankakerfið í heild og spurninguna um það hvort sparisjóðirnir komi til með að lifa af þrátt fyrir þessar breytingar og hvort ríkið verði orðinn rekstraraðili allra sparisjóða í landinu eftir helgina þegar frumvarpinu hefur verið komið í gegn. Vegna þess að ég get ekki séð að þeir hvatar séu innbyggðir í þessar breytingar að stofnfjáreigendur komi til með að koma inn með nýtt stofnfé og sparisjóðirnir komi til með að halda áfram þeirri sérstöðu sinni sem eru tengslin við byggðir landsins og þau samfélög þar sem þeir eru reknir.

Virðulegi forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa öfluga fjármálaþjónustu og sparisjóðirnir hafa sinnt landsbyggðinni vel. Við skulum vona að gæfa Íslands verði sú að sparisjóðakerfið nái að lifa þetta af að hluta til a.m.k. án þess að verða að fullu ríkisvætt vegna þess að hér liggur mikið undir og sérstaklega fyrir hinar dreifðu byggðir. Ég tel rétt að vekja enn og aftur athygli á því að vegna þess að með frumvarpinu er farið bæði í það að fjalla almennt um umhverfi sparisjóðanna og hins vegar um þessar björgunaraðgerðir, þá dreifist athyglin vissulega á þessa tvo mikilvægu þætti og þess vegna hefur frumvarpið að mínu viti ekki fengið nægilega vandaða og mikla umfjöllun sem vissulega er þörf á í ljósi þess að hér er verið að gera grundvallarbreytingar á einni meginstoð íslensks samfélags sérstaklega hvað varðar landsbyggðina.