137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar við ræddum þessi mál við 2. umr. málsins kom fram hjá mörgum stjórnarliðum, sem voru greinilega með óbragð í munninum yfir þessu frumvarpi, sú hugsun sem stundum skýtur upp í kollinn á manni þegar maður stendur frami fyrir erfiðu vali, að frestur kunni að vera á illu bestur. Þess vegna hrökk það upp úr hverjum hv. stjórnarliðanum á fætur öðrum að skynsamlegast væri að málið færi nú til nefndar á milli 2. og 3. umr. og væri þess þá að vænta þegar menn hefðu legið yfir þessu að það mundi birta til. Fram kæmu þær breytingartillögur sem gerðu það að verkum að þeir sem varað hafa við afleiðingunum af 7. gr. frumvarpsins þyrftu ekki að hafa af því áhyggjur. Það kom m.a. fram hjá formanni fjárlaganefndar sem talaði ítrekað, í andsvörum, ræðum og atkvæðaskýringum, að mig minnir, mjög á þessum nótum.

Eins og ég vakti athygli á í fyrstu ræðu minni við þessa umræðu er það svo að þegar við förum yfir hinn eiginlega afrakstur nefndarstarfsins milli 2. og 3. umr. hvað þetta frumvarp áhrærir, er hann ákaflega rýr. Hér er breytingartillaga sem hefur engar efnislegar afleiðingar fyrir það mál sem mest hefur verið rætt hér um, stöðu stofnfjáreigenda og þar með grundvöll sparisjóðakerfisins í landinu.

Mér finnst líka athyglisvert í þessari umræðu að stjórnarliðar hafa nánast algjörlega sniðgengið hana. Ég tek að vísu eftir því að hv. formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, er hér á mælendaskrá en þar með er það upp talið. Þetta er þó ekki neitt smámál, þetta er ekki mál sem hægt er að sópa frá sér með þægilegum hætti, þetta er mál sem mun, að frumvarpinu samþykktu, koma beint í fangið á heilu byggðarlögunum, þúsundum einstaklinga úti um allt land og sveitarfélögunum. Þó að menn kjósi að forðast þessa umræðu nú, vegna þess að mönnum finnst hún sjálfsagt erfið og óþægileg, sleppa menn ekki undan raunveruleikanum.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir er eina undantekningin sem sannar regluna því að hún hefur setið þessa umræðu, reyndar ásamt varaformanni nefndarinnar, og hún er sú eina úr hópi stjórnarliða sem bersýnilega ætlar sér að taka þátt í þessari umræðu. Hinir hafa kosið að vera fjarstaddir þannig að þeim finnst greinilega þetta vera óþægileg umræða enda byggðu þeir upp heilmiklar væntingar varðandi starf nefndarinnar milli 2. og 3. umr., væntingar sem munu ekki rætast. Það er algjörlega óhjákvæmilegt, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði áðan, að vekja sérstaka athygli á því að helsti baráttumaðurinn fyrir sparisjóðakerfinu, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hefur ekki látið svo lítið að líta inn í þessa umræðu og taka þátt í henni, hvað þá heldur ráðherra sveitarstjórnarmála, hæstv. samgönguráðherra, sem mun, ef þessi mál ganga eftir, sem mér finnst blasa við, fá í fangið þó nokkur sveitarfélög. Þau eiga sjálfsagt ekki margra úrkosta völ ef svo fer fram sem horfir að stofnfé sparisjóðanna verður fært niður svo um munar. Það er nefnilega óskhyggja þegar menn ímynda sér að af samþykkt þessa frumvarps leiði ekki annað en að stofnféð verði lítillega fært niður. Það er einfaldlega ekki þannig.

Komið hefur fram mjög skýrlega við 2. umr., m.a. hjá varaformanni viðskiptanefndar, að ætlunin sé að færa stofnfé niður að raunvirði sem þýðir á mæltu máli að stofnféð verður fært niður til samræmis við lækkun eigin fjár í þessum sjóðum. Og alveg eins og ég rakti í ræðu minni áðan hefur eigið fé í sparisjóðunum verið að lækka af ástæðum sem ég nefndi og hef ekki tíma til þess að endurtaka hérna. Við skulum því ekki ímynda okkur að í þetta skipti eigi það við að frestur sé á illu bestur, menn eru einfaldlega að skjóta sér undan óþægilegri umræðu.

Það er ekki rétt sem hv. formaður nefndarinnar sagði, að stofnfjáreigendur og sparisjóðirnir standi frammi fyrir frjálsu vali. Þeir gera það ekki. Sjóðir sem eru með lítið sem ekkert eigið fé og eiga eingöngu val á því að fá fjárhagslega fyrirgreiðslu frá ríkinu munu ekki geta gert annað en það sem ríkið leggur fyrir þá sem er þá að færa niður stofnféð. Það er því útúrsnúningur að tala um að það sé frjálst val, það er svolítið eins og að miða byssu á hausinn á manni og segja við hann: Nú verður þú að ráða hvernig þú drepst. Það er ekkert öðruvísi en það.

Frumvarpið mun hafa þessar alvarlegu afleiðingar fyrir sveitarfélögin, fyrir einstaklinga og fyrir byggðirnar og áður en menn (Forseti hringir.) átta sig á því verða þessi vandamál komin í fangið á þingmönnum kjördæmanna. Þá (Forseti hringir.) verða þeir sem leggja þessu frumvarpi lið auðvitað rukkaðir um sína pólitísku ábyrgð.