137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Það er um að gera að þingmenn leitist við að halda vöku sinni og bendi á þá annmarka sem þeir kunna að sjá á þeim málum sem hér eru til umfjöllunar. Ég vildi aðallega leiðrétta nokkuð sem ég hygg að byggi á misskilningi sem varðar skipan stjórnar félagsins. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að ekki er tilgreint í lagatextanum hver tilnefnir stjórn félagsins heldur stendur að hún skuli kosin á aðalfundi. Jafnframt greinir frumvarpið frá því að ríkissjóður sé handhafi hlutafjárins og fer einfaldlega að lögum hvað það varðar. Hæstv. fjármálaráðherra fer með hlutaféð fyrir hönd ríkissjóðs. Þess vegna er það hæstv. fjármálaráðherra sem mætir sem hluthafi á aðalfundina að gildandi lögum og með þessari skipan. Það er þess vegna hann einn sem hefur atkvæðisrétt á aðalfundinum sem kýs stjórn félagsins. Eins og frumvarpið liggur fyrir er það fjármálaráðherra sem skipar fimm manna stjórn félagsins eins og flestra hlutafélaga í eigu ríkisins nema þeirra sem sérlög gilda um.

Varðandi hitt atriðið um Bankasýsluna skil ég gagnrýni hv. þingmanns um að ef hér væri gert ráð fyrir því að stofnun sem ekki væri orðin að lögum ætti að yfirtaka þetta félag en svo er ekki heldur er það sett inn sem möguleiki að ef það frumvarp verður að lögum geti ríkissjóður ákveðið að setja hlutabréfin inn í Bankasýsluna. En það er ekki verið að ákveða það og þingið á eftir að fjalla um — og ég treysti því að það verði gert með vönduðum hætti — hvort og þá með hvaða hætti eigi að setja Bankasýsluna á stofn (Forseti hringir.) og verði ekki af því verður þessi valmöguleiki einfaldlega aldrei nýttur.