137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

ríkisbankarnir -- sparnaður í rekstri þingsins -- samgöngumál -- svar við fyrirspurn.

[10:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held því miður að hv. þm. Helgi Hjörvar geti ekki alveg sloppið svona frá þessu mikilvæga máli og reyndar er það svo að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom með nýjan flöt inn í umræðuna hér. Ég hef aldrei heyrt í umfjöllun nefndarinnar að jafnræðissjónarmið og samkeppnissjónarmið muni stangast á. Það er kannski eitthvað sem menn hafa rætt innan stjórnarflokkanna en mér finnst mjög hæpið að menn komi ekki með það inn á vettvang þingsins.

Hér kom skýrt fram hjá formanni viðskiptanefndar hennar pólitíski vilji að víkja frá samkeppnissjónarmiðum. Það er nákvæmlega það sem Samkeppniseftirlitið hefur varað sérstaklega við og sagt að allar þær þjóðir sem vinna sig út úr svona aðstæðum vilji ekki gera sömu mistök og gerð voru á þriðja áratug síðustu aldar þegar kreppan mikla varð. Menn telja að vegna þess að menn viku frá samkeppnissjónarmiðum hafi það dýpkað þá kreppu og tekið lengri tíma að vinna sig úr henni. Við erum að keyra hér í gegn bankasýsluna á miklum hraða, keyra í gegn ríkisvæðingu á sparisjóðunum. Og af því að hv. þingmaður sagði að þetta væri tímabundið vil ég upplýsa hv. þingmann um að það eru engar áætlanir um það að ríkið komi sér út úr ríkisvæðingu sparisjóðanna, nákvæmlega engar. Því miður er það ekki svo. Og erlendir sérfræðingar eru ekki Jesús Kristur á jörðu en menn hafa hins vegar ekki tekið tillit til þeirra athugasemda sem hafa komið t.d. frá Mats Josefsson varðandi bankasýsluna svo þeim upplýsingum sé til haga haldið.

Virðulegi forseti. Ég held að nú sé tími til að staldra við áður en menn setja allt (Forseti hringir.) efnahagslífið undir eina ríkisstofnun.