137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

breytingartillaga og umræða um ESB.

[12:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Frú forseti. Ég tala hér undir liðnum um fundarstjórn forseta enda er ég að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. Hér koma fram mjög alvarlegar ásakanir á hendur ríkisstjórninni og frú forseti situr og lætur eins og þær hafi ekki fallið. Hér kemur upp nýkjörinn þingmaður og lýsir því yfir að hann hafi verið beittur þrýstingi af hæstv. ríkisstjórn. Hefði þetta verið með eðlilegum hætti hefði frú forseti átt að gera fundarhlé og fara yfir málið með hv. þingmanni áður en hann gekk á dyr. Þetta fellur undir fundarstjórn forseta.

Atburðarásin í morgun hefur svo sannarlega sýnt að hér starfar minnihlutastjórn, ríkisstjórnin kemur þessu máli ekki í gegnum þingið og beitir til þess öllum þeim kúgunum sem hún hefur. Hér er hvorki verið að tala um það að ríkisstjórnin falli né standi. (Forseti hringir.) Þetta er stórt mál, þetta snýst ekki um ríkisstjórnina frekar en Icesave-málið. (Forseti hringir.) Hér á hver og einn alþingismaður að fá að gera grein fyrir sínu atkvæði en alltaf skal það komið að ríkisstjórnin sé að falla og hverjum væri svo sem ekki sama?