137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra ætti að halda sig við sínar túlkanir og leyfa okkur framsóknarþingmönnum að hafa okkar eigin skoðanir og standa við okkar eigin sannfæringar eins og á að gera.

Mig langaði reyndar að koma upp áður en ég fór í þessi andsvör við hæstv. ráðherra og spyrja hann út í aðra hluti, eins og að það er augljóst að við erum í erfiðri stöðu og þurfum að leita allra leiða. Mig langar að heyra álit hans á því hvort utanríkisráðuneytið hafi velt því fyrir sér að bera saman inngöngu okkar í NAFTA og hugsanlega upptöku dollars eða aðrar þær leiðir, eins og t.d. einhliða upptöku dollars eða evru, sem valkosti við þessa Evrópusambandsaðildarumsókn. Mig langar að heyra hvort í þá vinnu hafi verið lagt af hálfu utanríkisráðuneytisins og hæstv. ríkisstjórnar. Ég held að uppi á borðum sé sú staða að við getum engri leið hafnað og (Forseti hringir.) þurfum að skoða þær allar. Þess vegna hefur Framsóknarflokkurinn m.a. verið tilbúinn að skoða aðildarumsókn að Evrópusambandinu, þar með talinn ég.