137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fer hæstv. utanríkisráðherra algjörlega undan í flæmingi. Auðvitað getur hann ekki svarað því sjálfur hvort hann njóti trausts úti í Evrópu eða á alþjóðavettvangi. (Gripið fram í.) En veit hæstv. ráðherra hvað hann ber mikla ábyrgð á því sem gerðist í haust þar sem hann sat í ríkisstjórn? Hér kemur Samfylkingin fram eins og hún hafi ekki átt aðild að ríkisstjórn fyrr en í vor og lætur alltaf eins og ekkert sé og að það sem misfórst sé Sjálfstæðisflokknum að kenna.

Hér situr hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson í þingsal. Hann ber heldur en ekki mikla ábyrgð á þessu og er í þeim flokki sem nú steðjar með þjóðina til Evrópu að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Getur ekki verið að fólkið verði hvumsa, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir á, þegar ræður hæstv. fjármálaráðherra verða túlkaðar og þegar skoðað verður hver virkilega stýrir þessum umræðum, hæstv. utanríkisráðherra sem var (Forseti hringir.) utanríkisráðherra í ríkisstjórninni þegar hér fór allt í kaldakol, þegar það sér að hann situr þar enn?