137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega yfirgripsmikla, góða og ástríðufulla ræðu. Það var meining á bak við þessa ræðu og það er ánægjulegt. Hún kom inn á mjög margt sem er athyglisvert eins og til dæmis þessa tilvísun í Svía einhvern sem er að stjórna einhvers staðar, eins og það skipti einhverju máli. Mér skilst að þetta sé frjáls klúbbur, allt voðalega lýðræðislegt og fínt og það skiptir akkúrat engu máli hvort það er Svíi sem er þarna í forsvari eða einhver annar. Mér finnst það mjög athyglisverður punktur. Ég hafði ekki áttað mig á þessu. En menn eru í rauninni að segja að þarna sé eitthvað annað á ferð en lýðræði og frjáls samtök þjóða. Það skiptir máli hver sé í forsvari og það er ekki gott. Það er mjög slæmt.

En mig langar að spyrja hv. þingmann að öðru sem hún kom líka inn á og það er spurning um stjórnarskrána. Við þingmenn höfum svarið eið að stjórnarskránni og hér er verið að leggja til að Alþingi álykti um að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og svo framvegis. Megum við gera þetta? Allt í einu kviknaði hjá mér spurning: Má þetta, frú forseti? Ef við göngum í Evrópusambandið, er ekki verið að afsala sér til dæmis rétti til að gera samninga við önnur ríki? Er ekki verið að afsala sér fullt af ákvæðum stjórnarskrárinnar sem nauðsynlegt er að breyta áður en við getum sótt um? Má Alþingi yfirleitt leggja til nokkuð sem brýtur stjórnarskrána? Þetta var mikið rætt á sínum tíma í sambandi við öryrkjadóminn og fleiri mál, kvótadóminn og svo framvegis og þá brá Alþingi skjótt við og leiðrétti viðkomandi lög sem Hæstiréttur dæmdi að væru andstæð stjórnarskránni. Ég vil spyrja hv. þingmann: Getur það verið að þessi umsóknarbeiðni brjóti gegn stjórnarskránni?