137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að beiðnir um það að menn fái að ræða hér hlutina almennilega og fái til þess nægan tíma snúi einmitt að því að umræðan sé sem mest upplýsandi og til þess fallin að það starf sem hér er verið að vinna skili sem mestu. Hverju skilar það, frú forseti, að halda þinginu hér fram að miðnætti á föstudagskvöldi um mitt sumar og ætla að kalla þingið hingað um helgi? Það að ræða mál ítarlega snýst ekki bara um það að ræða það í langan tíma samfleytt. Það snýst um að aðstæður séu slíkar að hægt sé að ræða það vel. Til þess að ræða það vel, jú, þá þarf langan tíma en það þarf líka að gefa svigrúm inn á milli til þess að menn geti þá borið saman bækur sínar og unnið vinnu sína almennilega. Starf þingmanna felur jú reyndar fleira í sér en að sitja hér í þingsal svoleiðis að ég mundi gjarnan vilja að þingmenn fengju tækifæri til þess, eins og til stóð hjá mér til að mynda um helgina, að fara á fundi úti á landi (Forseti hringir.) og hitta þar fólk svo að við séum ekki hér einangruð í afmörkuðum hópi heldur getum haft umræðuna víðari.