137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:47]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé ekki á móti því að við ræðum þingsályktunartillöguna sem hér liggur fyrir í þingsalnum, af því að ég gat ekki betur heyrt en að hann væri á móti því að ræða um efni máls, um umsókn eða aðild að Evrópusambandinu. Vel kann að vera að hann sé á móti því. Ég held líka að hv. þingmaður hafi ekki alveg verið að hlusta, frú forseti, því að ég sagði að það væri samhljómur í ræðum þingmanna hér þegar kæmi að því hvaða hagsmuna við ættum að gæta og hverjir væru þeir hagsmunir sem um væri að tefla. Ég hef hlýtt á næstum allar ræður sem haldnar hafa verið hér í dag og tel mig geta fullyrt að það hafi verið samhljómur með flestum þeirra. Nú kann að vera að það hafi ekki alveg verið algjör samhljómur. En það er nú einfaldlega mat manna eins og annað hvernig það liggur.

Svo vil ég, frú forseti, bara biðja hv. þingmann að leggja mér nú ekki orð í munn eða gera mér upp skoðanir, hvorki um Evrópusambandið né neitt annað. Ég er þeirrar skoðunar að pólitískur samastaður Íslands sé í nánu samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir innan Evrópusambandsins. Ég hef verið þeirrar skoðunar í um það bil 20 ár eins og ég sagði í ræðu minni. Það er hvorki nýtt né breytt, og það að ég sé þeirrar skoðunar gerir það ekki að verkum að hv. þm. Pétur H. Blöndal geti ekki verið allt annarrar skoðunar, sem mér heyrist hann reyndar vera. Hann mun þá væntanlega lýsa þeirri skoðun sinni með því hvernig hann greiðir atkvæði um þessa tillögu.