137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er sérlega ánægjulegt að fá á þessum fallega laugardegi að fjalla um það nefndarálit sem hér liggur fyrir um aðildarumsókn að Evrópusambandinu því að fyrir okkur í Samfylkingunni er þetta nefndarálit auðvitað með sínum hætti Óðurinn til gleðinnar. Hefur verið sérlega ánægjulegt að fá að taka þátt í umfjöllun utanríkismálanefndar um málið undanfarnar vikur og ég vil byrja á því að þakka samnefndarmönnum fyrir málefnalega umfjöllun og gestum fyrir innlegg þeirra í þessa umræðu og formanni og varaformanni nefndarinnar fyrir ítarlega og góða vinnu að því nefndaráliti sem nú liggur fyrir Alþingi að taka afstöðu til.

Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að í stórum álitaefnum eins og hér eru á ferðinni, álitaefnum sem hafa verið til umræðu í íslensku samfélagi um langt árabil og eru auðvitað skoðanir skiptar á, að í þeirri endurskoðun á íslensku samfélagi og skipan þess og þeirri stefnu sem bæði við sem þjóð og sem einstaklingar þurfum að marka okkur til framtíðar eftir það hrun sem hér hefur orðið, þá er gríðarlega mikilvægt að við náum niðurstöðu, náum að marka leiðina í jafnmikilvægum lykilákvörðunum og þeim sem hér eru á ferðinni.

Evrópusambandið hefur auðvitað verið mjög umdeilt á Íslandi og í stjórnmálaumræðu á Íslandi og það hefur kannski vakið nokkra furðu hversu rólegt hefur verið í kringum framlagningu þessa máls og umfjöllun alla, í raun og veru hversu litlar deilur hafa risið í samfélaginu, hér á þinginu og í nefndarstarfinu um málið allt þegar til þess er litið hversu umfangsmikið það er og hversu mikil áhrif þess munu verða eða geta orðið á öllum sviðum samfélagsins, og þegar tillit er tekið til þess hversu harðvítugar deilur hafa oft og tíðum skapast um aðild að alþjóðasamstarfi eins og hér um ræðir og tekist á heitar tilfinningar og harðar rökræður. Ég held að ein helsta ástæðan fyrir því hversu friðsælt hefur verið í kringum umfjöllun þessa máls sé sú að í raun og veru séu bæði fylgjendur og andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu því fegnir að málið sé að komast í farveg, að það sé verið að setja af stað leiðangur sem mun enda með því að tekin verði ákvörðun um annaðhvort að sækja um aðild að Evrópusambandinu og haga þá málefnum okkar í samfélaginu með hliðsjón af því eða að niðurstaðan verður sú að þjóðin vill ekki aðild að Evrópusambandinu og þá getum við skipað okkar málum út frá því.

Ég held að það sé þess vegna umtalsverður stuðningur við málið, bæði í röðum fylgismanna og andstæðinga Evrópusambandsaðildar. Það er full ástæða til að undirstrika það að það mál sem hér liggur fyrir snýst auðvitað ekki um það að ganga í Evrópusambandið eins og út af fyrir sig ýmsir af þingmönnum stjórnarflokkanna hafa undirstrikað. Hér er auðvitað á ferðinni mál um að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Auðvitað hlýtur í flestum tilfellum að felast í því að menn hafi þá afstöðu að ef við náum verulega góðum samningi og þeim skilyrðum sem hver og einn fyrir sjálfum sér setur um það hvað þarf að felast í aðildinni til að hann geti fellt sig við hana, þá viljum við ganga inn. Svo verður auðvitað að reyna á það í aðildarviðræðunum hversu gengur að ná samningunum og ýmsum þeim skilyrðum sem menn hafa áhuga á. En auðvitað er það líka til í þeim hópi sem hér er einfaldlega lýðræðisáhuginn á málinu, þ.e. áhugi á því að setja af stað ferli sem lyktar einfaldlega með því að þjóðin fær að taka afstöðu til þess álitaefnis sem hér er og þingið eigi ekki að hafa forræði fyrir þjóðinni í þessu stóra máli heldur eigi hún sjálf að fá að hafa það forræði í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fyrir þeim sem hér stendur er aðild að Evrópusambandinu gríðarlega mikilvæg fyrir Ísland. Að því gefnu að við fáum varðveitt forræði og eignarhald á auðlindum okkar og viðurkenningu á ýmissi sérstöðu þá eru í því fólgnir miklir kostir að gerast aðili að Evrópusambandinu. Sambandið sjálft hefur ýmsa kosti og býsna merkilega sögu sem líka er vert að líta til. Ein af ástæðunum fyrir því að sá sem hér stendur er svo mikill stuðningsmaður Evrópusambandsins og aðildar að því er sú að Evrópusambandið er auðvitað í grunninn og í upphafi hugsjónin um frið í okkar heimshluta. Það var myndað til að skapa grundvöll fyrir frið í okkar heimshluta eftir að sá heimshluti var illa leikinn í átökum æ ofan í æ með þeim hörmulegu afleiðingum sem það hafði fyrir fólk ekki bara á meginlandinu heldur líka hér uppi í Norðurhöfum. Sá leiðangur hefur til þessa heppnast býsna vel. Með því að skapa gagnkvæm hagsmunatengsl, með því að fella burt viðskiptahöft, með því að auka og skapa gagnkvæma viðskiptahagsmuni, með því að stuðla að menningarsamskiptum, menntasamstarfi, vísindasamstarfi, samstarfi yfir landamæri á öllum sviðum samfélagsins þá leggja menn auðvitað grunninn að varanlegum friði vegna þess að með samskiptunum styrkja þeir hina gagnkvæmu hagsmuni og þörfina fyrir að allir standi vörð um friðinn í álfunni. Það eru auðvitað miklir hagsmunir okkar Íslendinga alveg eins og það eru miklir hagsmunir fólksins á meginlandinu.

Sjálfstæðisbarátta okkar hefur líka í raun alltaf byggst að verulegu leyti á því hversu mikið við höfum sótt í það þegar við höfum haft kjark, þrek og þor til að fella niður viðskiptahindranir við útlönd, til að auka viðskiptafrelsi í viðskiptum okkar við okkar helstu markaði. Það sýnir sagan okkur að voru mikilvæg skilaboð þeirra sem hér fóru fyrir í sjálfstæðisbaráttunni. Og þeir áfangar í Íslandssögunni frá því að við fengum fullveldi þar sem við höfum borið gæfu til að fella burt viðskiptahindranir og viðskiptahömlur hvers konar við okkar helstu viðskiptamarkaði eru skref sem hafa orðið til þess að efla hér efnahagslegar framfarir og með því að styrkja sjálfstæði okkar sem þjóðar. Sjálfstæði er auðvitað nokkuð annars konar hugmynd í samfélagi 21. aldarinnar en hún var í upphafi síðustu aldar því að í dag felst sjálfstæðið í því að vera virkur þátttakandi í alþjóðastofnunum og jafnvel á tímum að framselja hluta fullveldisins til slíkra stofnana en einmitt þannig standa menn vörð um sjálfstæði, enda dettur auðvitað engum í hug að halda því fram að nokkurt þeirra 27 ríkja sem eru aðilar að Evrópusambandinu t.d. sé ósjálfstætt ríki þar með. Þvert á móti eru auðvitað norrænu ríkin, Danmörk, Svíþjóð og Finnland ekkert síður sjálfstæð ríki eftir inngöngu sína í Evrópusambandið en fyrir.

Það er líka ástæða fyrir okkur til að líta til þess, Íslendinga, að tvö þeirra ríkja, bæði Svíþjóð og Finnland, tóku sína miklu stefnumarkandi ákvörðun í kjölfar viðburða þar sem líkjast að ýmsu leyti þeim atburðum sem hér urðu í vetur, þ.e. fjármálakreppunni í Svíþjóð og kreppunni í Finnlandi á sinni tíð. Þó er það auðvitað svo að það efnahagsáfall sem hér reið yfir í vetur er langtum, langtum stærra en þær þjóðir þurftu að glíma við og efnahagur okkar, gjaldmiðill okkar og staða í alþjóðasamfélaginu miklu veikari en þeirra ríkja var nokkru sinni. Við munum það auðvitað, þó að við viljum kannski ógjarnan rifja það upp, að í vetur reyndum við það nokkuð hvert einangrunarstefnan leiðir ríki og hvert hroki leiðir ríki, og framganga okkar hafði auðvitað verið með þeim hætti að hún hlýtur að kalla á nokkuð gagnrýna endurskoðun okkar, bæði menningarlega, pólitískt og auðvitað ekki síst í viðskiptalífinu þar sem menn höfðu sumpart gengið fram gagnvart veröldinni eins og hér væri einhver sjóræningjaklettur úti í hafi þaðan sem víkingar gerðu út til að gera strandhögg í öðrum löndum í útrásinni og hertækju hvern kastalann á fætur öðrum hvort sem þeir hétu Magasin eða eitthvað annað.

Í október horfðumst við í augu við það að fjármálakerfi okkar hrundi og satt að segja var ekki mikinn stuðning að hafa. Satt að segja var hér allt í býsna mikilli tvísýnu um lágmarksaðdrætti að landinu og um lágmarksöryggi í samfélaginu. Þeir sem voru á vaktinni þá hljóta auðvitað alltaf að vera sér meðvitaðir um það að slíkt getur gerst, vonandi sem allra sjaldnast, vonandi á margra áratuga fresti en ef og þegar slíkt gerist þá skiptir ekki síst gríðarlegu máli að eiga í öflugu og nánu samstarfi og samvinnu við aðrar þjóðir. Það er fullvissa mín að sá leiðangur sem við erum að leggja af stað í sé alvarleg tilraun til þess að styrkja og efla slíkt samstarf til að við eigum betri og sterkari bandamenn ef slíkar aðstæður skapast hér einhvern tíma aftur, en auðvitað líka vegna þess að í honum er að sækja tæki til að forðast það að lenda aftur í slíkri aðstöðu eins og við höfum lent í.

Eitt af þeim tækjum, og það er kannski eitt af því jákvæðasta sem við höfum séð við að hefja aðildarferlið, er gjaldmiðillinn. Það er sú staðreynd sem við upplifðum á eigin skinni á liðnu ári að í nútíma alþjóðlegu hagkerfi er einfaldlega ekki hægt að reka íslensku krónuna. Það hefur sýnt sig, og það í sjálfu sér getur hver maður séð í hendi sér, að þjóð, þótt hún sé sterk og öflug og búi að glæsilegri sögu og menningu, fallegri náttúru og miklum auðlindum, sem telur aðeins 0,3 milljónir manna getur einfaldlega ekki ein og sér varið gjaldmiðil á höfum heimsins ef svo má segja af því að einn einasti gjaldeyriskaupmaður á gengisborðunum í kauphöllunum getur velt og vaggað þeirri mynt. Íslenskur almenningur er auðvitað nú að súpa seyðið af því að verulegu leyti því að hér voru spákaupmenn, ekki erlendir gjaldeyriskaupmenn sérstaklega heldur allt eins innlendir, sem tóku stöðu ýmist með eða á móti þessum veika gjaldmiðli og hirtu milljarða og milljarðatugi í hagnað af hverjum viðskiptunum á fætur öðrum og tóku út úr efnahagnum og skildu eftir sem skuldir á almenningi á Íslandi.

Þegar menn líta yfir sögu íslensku krónunnar og skoða sveiflur hennar þá felst auðvitað þar í ákveðin aðlögunarhæfni að sveiflum í efnahagsástandi því að sannarlega sveiflast krónan mjög upp og niður, en það gerir auðvitað líka að verkum að heimili og fyrirtæki í landinu hafa um langt, langt skeið, ég leyfi mér að segja áratugaskeið, ekki búið við eðlilegt umhverfi til að gera áætlanir um framtíð sína, skipuleggja og byggja upp. Það er sannfæring mín að það hafi haft neikvæð áhrif á menningu okkar á öllum sviðum. Sá efnahagslegi veruleiki sem hefur gert það að verkum að öll áætlanagerð og öll festa í framkvæmd áætlana, allur agi í því að fylgja áætlunum og starfa að sígandi lukku sinni, skref fyrir skref og ár eftir ár, að það að hinar efnahagslegu aðstæður hafa ekki boðið upp á það, hafi því miður haft neikvæð áhrif fyrir menningu okkar. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að við verðum á þessu sviði, í gjaldeyrismálunum, hluti af stærri heild, hluti af agaðri markaði, hluti af sterkum gjaldmiðli þar sem eru líka lágir vextir eins og er á evrusvæðinu, þeir lágu vextir sem íslenskt atvinnulíf þarf á að halda til vaxtar og viðgangs, því að það vaxtastig sem íslenska krónan býður þeim upp á í dag er auðvitað gríðarlega hátt. Þegar við horfum til þess að það eru fyrirtækin og fólkið í fyrirtækjunum sem eiga að standa undir vaxandi verðmætasköpun á næstu árum og áratugum vitum við auðvitað öll hve miklu máli skiptir að skapa þeim þessar aðstæður.

En það er ekki aðeins af fjárhagslegum eða efnahagslegum ástæðum og ekki heldur bara fyrir hugsjónina frið sem það er sannfæring mín að þessi leiðangur sé hinn rétti, það er einfaldlega sú afstaða okkar jafnaðarmanna að við erum félagshyggjufólk. Við á Íslandi höfum tekið ákvörðun um að vera hluti af hinum evrópska markaði. Nauðsynlegt skref í framhaldi af því er að verða hluti af hinu félagslega skipulagi sem er sett yfir þann markað vegna þess að eins og við höfum fengið að reyna svo beisklega þá er það þannig að markaðir bresta og sá markaður sem við vorum á brast og hér varð verulegt áfall í atvinnulífinu. Það félagslega skipulag sem menn hafa yfir mörkuðum er annars vegar til að hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem þar er til að leitast við að varna því að markaðsbrestir verði. Það kalla menn stundum með nokkurri fyrirlitningu eftirlitsiðnað eða skrifræði, og oft er þannig talað um Brussel í þessum sal m.a., en hvað hefðum við þurft annað en meira eftirlit og skrifræði til að koma í veg fyrir að þau fráleitu glappaskot sem menn gerðu í aðdraganda bankahrunsins ættu sér stað? Auðvitað er þetta einfaldlega nauðsynlegt fyrir okkur. Þegar við erum orðin hluti af hundraða milljóna markaði þá gerist það að hér geta starfað fyrirtæki sem starfa á tug og hundraða milljóna mörkuðum. Hér getur það gerst að starfi kaupsýslumenn sem hafi fleira fólk í vinnu en býr á Íslandi og til að geta haft eftirlit með og veitt aðhald slíkum risafyrirtækjum þá er okkur einfaldlega mjög mikilvægt að vera líka hluti af stærri heild, að vera líka hluti af þessum eftirlitsiðnaði og skrifræði, sem menn tala stundum um með svo mikilli fyrirlitningu, að vera líka hluti af stóru myntbandalagi, að vera líka aðili að Evrópska seðlabankanum og njóta stuðnings af slíkum sterkum aðila og líka, eins og kannski hefði verið gott í Icesave-málinu, að geta skotið málum sínum til Evrópudómstólsins ef á þarf að halda eða tekið mál upp við samstarfsþjóðir sínar innan sambandsins.

Það er líka gríðarlega mikilvægt að þróa í tengslum við markað og skrifræði yfir einum markaði lýðræðisskipulag og það skipulag hefur sannarlega verið að þróast í Evrópusambandinu en þar má auðvitað enn stíga mörg skref og stærri til að efla og styrkja lýðræðisstarfið innan bandalagsins og ég held að við getum orðið mikilvægur hluti af því.

Það er líka — vegna þess að það er mikilvægt fyrir okkur að eiga aðild að sambandinu — mikilvægt fyrir okkur að geta beitt okkur til að hafa áhrif á stefnu sambandsins í mikilsverðum málum fyrir okkur vegna þess að þar er að finna það afl og þann kraft í alþjóðasamskiptum og samningum og samstarfi sem mikla þyngd hefur og miklu skiptir. Er skemmst að minnast þess mikla brautryðjendastarfs sem sambandið hefur unnið í mesta og stærsta verkefni okkar samtíma sem varðar íslenskt samfélag auðvitað gríðarlega miklu og langtímahagsmuni kynslóðanna sem á eftir okkur koma, en það eru loftslagsmálin þar sem róttæk og sterk stefnumörkun Evrópusambandsins hefur leitt alla vinnu á alþjóðavettvangi í þeim málum og er nú að skila fleiri áföngum eins og sést af fundi iðnríkjanna átta nú í vikunni.

Ég vona, virðulegur forseti, að við berum gæfu til að afgreiða þessa tillögu á næstu dögum í þinginu svo hún megi komast til þess forusturíkis sem nú er í Evrópusambandinu, Svíþjóðar, og það megi takast að haga þannig málum að áætlun um aðildarviðræður geti legið fyrir í desembermánuði næstkomandi og við getum síðan í framhaldi af því hafið viðræður og lokið þeim svo fljótt sem verða má. Ég held að við þær aðstæður sem nú eru skipti það einfaldlega gríðarlega miklu máli að fá niðurstöðu í þennan leiðangur og ekki síst að kanna til þrautar hvort okkur meðan á inngöngu stendur og á fyrstu árunum þar á eftir geti boðist eitthvert það skipulag utan um myntkerfi okkar sem geti stutt okkur út úr þeim erfiðleikum sem við erum í. Gjaldeyrishöftin sem við nú búum við eru náttúrlega algerlega óþolandi umhverfi fyrir samfélagið allt og ekki síst fyrir atvinnulífið og munu hamla vexti og viðgangi þess á næstu árum ef við sköpum ekki einhverja aðra úrlausn í þeim efnum. Það er auðvitað eitt af þeim stóru hagsmunamálum sem til umræðu verða í aðildarviðræðum.

Ég treysti því sömuleiðis að tillögur um að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu sem kallað er — þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort menn eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning, sem er algerlega séríslensk hugmynd og ég hygg að hafi hvergi komið til framkvæmda neins staðar — muni ekki eiga hér fylgi að fagna. Ég undrast það nokkuð að hún sé flutt fram af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins á Alþingi, ekki síst eftir að hafa í nóvembermánuði síðastliðnum lesið ágæta grein eftir bæði formann þess flokks og þingflokksformann, hv. þingmenn Bjarna Benediktsson og Illuga Gunnarsson, sem töldu ekki að landsforustan þyrfti neitt umboð frá þjóðinni í slíkri atkvæðagreiðslu til að hefja samningaviðræður um þessa mikilsverðu hagsmuni heldur væri það einfaldlega verkefni stjórnmálaforustunnar í landinu að fara í þær viðræður og fá niðurstöður úr þeim um það hvernig hagsmunum Íslands gæti verið skipað innan Evrópusambandsins og síðan gæti þjóðin tekið afstöðu til þess. Það er öllum ljóst sem fylgjast með stjórnmálum á Íslandi hvað þar gerðist. Þar var auðvitað haldinn landsfundur og forustunni því miður settar nokkrar skorður í því hvernig halda mætti á málinu og stefna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu samþykkt þvert gegn vilja a.m.k. ýmissa í henni án þess að ég vilji fullyrða um þá tvo sem hér fyrr voru nefndir.

Það er líka leiðinlegt að sjá hinn nýja Framsóknarflokk eða hluta hans ætla að fylkja sér um þá leið eftir að hafa, eins og mér skildist, hafnað henni og tekið upp stefnu um það að fara eigi í aðildarviðræður svo seint sem í febrúar á þessu ári. En auðvitað virðist þessi leiðangur meira og minna markast af því að stjórnarandstaðan fellur í þá gryfju í þessu mikilsverða hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar að taka ekki efnislega afstöðu til þess heldur reyna að finna leið til að sækja að stjórnarmeirihlutanum vegna þess að hún veit sem er að þar eru skiptar skoðanir um þetta mál eins og víðast í samfélaginu. Í stað þess að taka þátt í því og skapa breiða samstöðu um það að leiða þetta mál til lykta með málefnalegum hætti í aðildarviðræðum og þjóðaratkvæðagreiðslu, kýs hún að nota það í pólitískri refskák og klækjabrögðum eins og svo mjög reyndust okkur til ófarnaðar hér áður fyrr. En það er út af fyrir sig bara lýðræði og ég vona að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þeirri viðleitni heldur megi þessi leiðangur verða settur af stað sem allra fyrst.