137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

uppgjör vegna gömlu bankanna.

[15:13]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú er gert ráð fyrir að uppgjörið vegna ráðstöfunar eigna og skulda gömlu bankanna til nýju bankanna ljúki eigi síðar en 17. júlí eða á föstudaginn. Samkvæmt upplýsingum sem komu fram á fundi viðskiptanefndar er ætlunin að flytja bæði slæmar og góðar eignir íslenskra fyrirtækja úr gömlu bönkunum yfir í nýju bankana í stað þess að skilja þær einfaldlega eftir í gömlu bönkunum að öllu eða einhverju leyti.

Ég spyr því hæstv. viðskiptaráðherra: Hefur samninganefnd ríkisins gefist upp á að reyna að skila einum eða tveimur af nýju bönkunum til kröfuhafa í stað þess að semja við kröfuhafa um verðmatið á eignum nýju bankanna?

Ég spyr því að það er mikill ávinningur fyrir íslenskt samfélag að fara þessa leið. Ég nefni sem dæmi að ef við færum þessa leið þyrfti eigið fjárframlag ríkisins að vera minna en gert er ráð fyrir, m.a. af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og kröfuhafar munu ekki aðeins njóta ávinningsins af rekstri bankanna heldur líka að taka á sig tapið. Síðan er líklegt að bankar í eigu erlendra kröfuhafa eigi auðveldara með að fá lán erlendis en bankar sem eru í eigu íslenska ríkisins.

Ég vil einnig spyrja hæstv. viðskiptaráðherra: Hver verður stærð efnahagsreikninga nýju bankanna og er gert ráð fyrir að ríkið leggi nýju bönkunum 280 milljarða kr. eða verður sú upphæð hærri?

Að lokum: Mun þetta framlag, þ.e. 280 milljarðar, duga fyrir afskriftum nýju bankanna og lánum sem færð hafa verið yfir frá gömlu bönkunum?