137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni um hvort hann teldi að undanþágur sem við fengjum, aðallega gagnvart sjávarútveginum, því það hafa menn horft mest á — líka í hans flokki — og landbúnaði, yrðu að vera varanlegar að hans mati. Hvort hann mundi aldrei samþykkja aðild að Evrópusambandinu ef undanþágurnar yrðu tímabundnar, segjum til 20 ára, 30 ára, 100 ára.

Síðan vildi ég spyrja hann nánar út í það, ef öllum skilyrðum sem hann og Framsóknarflokkurinn gera kröfu til, ef nammipokinn væri þannig að allt væri uppfyllt, mundi hann þá ganga í Evrópusambandið? Mundi hann vilja sjá Ísland sem hluta af Evrópusambandinu? Ef hann hugsar svo sem eins og, ég veit ekki hvað ég á að voga mér að fara langt fram í tímann með hv. þingmann en segjum svona 30–50 ár, hvernig sér hann þá fyrir sér Evrópusambandið? Eftir þá gífurlega hröðu þróun sem þar hefur átt sér stað síðustu 15–20 árin, evruna, Lissabon-samkomulagið, — þar er mikil þróun sem hefur átt sér stað, hvernig sér hann fyrir sér Ísland sem lítinn hrepp í risastóru ríki, sem Evrópusambandið er þá mjög líklega orðið, eins og Bandaríki Evrópu? Hvernig sér hann fyrir sér áhrif Íslands í Brussel og áhuga og þekkingu Brussel-búa á högum Íslendinga, hvort það verði ekki svipað eins og kansellíið í Kaupmannahöfn á sínum tíma?