137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef auðvitað ákveðnar efasemdir um hvað þetta er léttvægt afgreitt í greinargerð hv. utanríkismálanefndar. Það er alveg rétt sem hér kom fram að þetta er afgreitt í tveimur línum, eins og leiða megi líkur að því að við munum uppfylla Kaupmannahafnarskilyrðin. Við hvað miða nefndarmenn þá? Við hvaða tíma? Mjög erfitt er gera sér grein fyrir því, með svo marga óvissuþætti í íslensku efnahagslífi, hvort eða hvenær við getum uppfyllt þessi skilyrði. Við munum á einhverjum tíma ná vopnum okkar, þó að það verði kannski ekki undir forsæti þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Ég hef ekki nokkra trú orðið á árangri hennar. En við munum ná vopnum okkar og þá munum við auðvitað ná að uppfylla þessi skilyrði. En þetta er engan veginn tímabært. Í ræðu minni áðan fór ég yfir Maastricht-skilyrðin og það er alveg augljóst að við eigum langt í land með einhverja möguleika á því að taka upp evru. Sú tálsýn og tálmynd sem hæstv. ríkisstjórn, og Samfylkingin sérstaklega, leggur á borð fyrir þjóðina er auðvitað ekkert annað en fals og kosningaloforð. Tálmynd og draumsýn sem munu ekki ganga upp.