137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Frú forseti. Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram tillögur á þinginu um svokallaða tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið sérstaklega hallur undir þjóðaratkvæðagreiðslur þó að oft hafi komið upp í þjóðfélagsumræðunni krafan um að könnuð yrði með formlegum hætti afstaða þjóðarinnar til stærri mála. Mér dettur í hug í fljótu bragði þrjú mál sem hefðu verðskuldað þjóðaratkvæðagreiðslur á liðnum áratug. Í fyrsta lagi fjölmiðlamálið, í öðru lagi aðkoma Íslands að Íraksstríðinu og í þriðja lagi Kárahnjúkavirkjun.

Sjálfstæðisflokkurinn leiddi ríkisstjórn á þeim tíma þegar öll þessi mál komu upp og var í lófa lagið að bera þau undir atkvæði þjóðarinnar. Það kom þó aldrei til greina, ekki einu sinni þegar forseti Íslands hafði synjað fjölmiðlalögunum staðfestingar og stjórnarskráin kvað á um að þau skyldu borin undir þjóðina.

Nú bregður svo við þegar Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í stjórnarandstöðu eftir rúmlega 17 ára samfellda stjórnarsetu að hann fær skyndilega svo brennandi ást á þjóðaratkvæðagreiðslum að hann leggur til að þjóðin verði spurð beint, ekki einu sinni heldur tvisvar í sama málinu, bæði fyrir og eftir að hún hefur öðlast forsendur til að taka upplýsta afstöðu. Nú eru allir flokkar sammála um það að leggja væntanlegan aðildarsamning við ESB í dóm þjóðarinnar þegar samningurinn liggur fyrir. En sú aðferð er í besta falli sérkennileg að spyrja þjóðina líka fyrir fram hvaða álit hún hefur á aðildarsamningi sem ekki hefur verið gerður, enda hefur engri þjóð dottið í hug að fara þessa leið fyrr en nú að hún skýtur upp kollinum á Íslandi.

Það merkilega er að formaður Sjálfstæðisflokksins var sjálfur þeirrar skoðunar fyrir örfáum mánuðum að einföld þjóðaratkvæðagreiðsla að loknum aðildarviðræðum væri nóg eða eins og hann sagði í blaðagrein í Fréttablaðinu 13. desember, með leyfi forseta: „Þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi kalla á að þjóðin öll taki í kjölfar aðildarviðræðna ákvörðun um þetta mikilvæga mál.“

Því langar mig að spyrja formann (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktsson: Hvernig stendur á því að hann stendur ekki lengur við þá prýðilegu stefnumörkun sem hann kynnti í desember sl.?