137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:14]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir þessa spurningu. Það er auðvitað erfitt að meta það kostnaðarmat sem hér er lagt til grundvallar og ég sem leikmaður get einungis sagt að mér finnst þýðingarkostnaðurinn ríflega áætlaður og starfsmannakostnaðurinn sýnist mér ekkert sérstaklega ríflega áætlaður, þannig að þetta er svona mitt mat á því.

Hins vegar vil ég svara því hvernig þetta horfir við mér sem menntamálaráðherra að Íslendingar hafa auðvitað tekið mjög virkan þátt í þessu Evrópusamstarfi og fengið mjög mikið frá Evrópusambandinu. Við höfum verið aðilar að rammaáætlunum á sviði vísinda, mennta, tækni, menningar, og höfum ekki skorið niður í þeim gjöldum af því að við höfum auðvitað fengið gríðarlega styrki inn í okkar vísindastarf, rannsókna- og þróunarstarf og annað slíkt. Og þó að ég vildi að sjálfsögðu helst forgangsraða öllum fjármunum í þágu menntunar tel ég þó að við höfum hagnast nokkuð bæði fjárhagslega og líka innihaldslega (Forseti hringir.) á samstarfi okkar við Evrópusambandið og þátttöku í áætlunargerð.