137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherrar Vinstri grænna og nokkrir þingmenn, eins og hv. formaður utanríkismálanefndar, hafa verið að vinna að þessu máli. Það er spurning til hv. þingmanns, hann styður þessa ríkisstjórn: Hvernig stendur á því að þessir hv. þingmenn eru tilbúnir til að ganga svona á svig við sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar?

Svo sagði hv. þingmaður í byrjun þessarar umræðu í frægri ræðu sem hann hélt: „Þá barst mér til eyrna að slíkt gæti valdið stjórnarslitum.“ Það var sem sagt hótað, og ég vil spyrja hv. þingmann: Hver hvíslaði því í eyrun á hv. þingmanni að það yrðu stjórnarslit og hvaðan kom sú hugsun?