137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir góða og skilmerkilega ræðu þar sem hann rakti kosti og galla þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ég vil jafnframt hrósa hinum unga þingmanni fyrir hugrekkið sem hann sýndi og hefur sýnt hér í þingsölum. Ég hef kallað mjög eftir því í ræðum mínum hér í þinginu að þingmenn sýni hugrekki vegna þess að íslensk þjóð þarf á því að halda að hér starfi hugrakkir stjórnmálamenn sem þori að standa við sína eigin sannfæringu og sýna í verki að þeir séu trúir því sem þeir hafa kynnt kjósendum sínum í kosningabaráttunni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, þar sem hann hefur einhverjar upplýsingar um hvernig þetta ríkisstjórnarsamstarf gengur fyrir sig: Er Samfylkingin með eitthvert plan B? Þekkir hv. þingmaður til þess en þetta virðist vera eina mál Samfylkingarinnar, eina lausnin á öllu því sem hér fer fram? (Forseti hringir.) Okkur hefur verið tíðrætt um hvort eitthvert plan B sé til hjá Samfylkingunni og hvort hv. þingmaður geti upplýst okkur um það.